Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrír farþegar úr Veróna fluginu smitaðir af COVID-19

08.03.2020 - 20:21
Lögreglumaður með grímu fyrir vitum að taka á móti farþegum úr flugi frá Veróna.
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Þrjú COVID-19 veirusmit hafa greinst af þeim sýnum sem tekin voru af farþegum úr flugvélinni frá Veróna sem lenti á Keflavíkurflugvelli í gær. Fjöldi smitaðra hér á landi er nú 58 talsins, þar af tíu innanlandssmit. Hátt í 500 eru í sóttkví hérlendis og álíka mörg sýni hafa verið tekin til greiningar, þar af um 400 á höfuðborgarsvæðinu.

Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli seinnipartinn í gær þegar flugvélin lenti með rúmlega 70 farþega. Þeir eru allir í sóttkví. 

Einn þeirra sem smituðust innanlands er leigubílstjóri sem smitaðist þegar hann ók með fjóra farþega frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgarsvæðisins, sem allir reyndust með veiruna. Fólkið hafði verið á skíðum á Norður-Ítalíu. 

Þá þurfti Gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi að fækka rúmum úr fimm í fjögur eftir að fimm hjúkrunarfræðingar á deildinni hafa greinst með smit. Þeir eru í einangrun. Þá eru fimm aðrir hjúkrunarfræðingar á deildinni í sóttkví.