Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrír Everest-farar látnir og einn týndur

22.05.2017 - 06:08
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Þrír fjallgöngumenn fórust á Everest-fjalli um helgina og þess fjórða er saknað. Þá hefur tólf göngumönnum verið bjargað af fjallinu undanfarna þrjá daga eftir að hafa lent í hrakningum á leiðinni á tindinn, að því er fréttastofan AFP hefur eftir þyrlubjörgunarmönnum.

Rekja má dauðsföllin um helgina til háfjallaveiki. Alls hafa fimm látist á fjallinu síðan göngutímabilið hófst í apríl. Það hefur einkennst af sveiflum í veðri, stífum vindum og óvenjulega miklum kulda. Veðrinu slotaði um helgina og það opnaði glufu fyrir göngufólk að reyna við tindinn.

Nepalskur leiðsögumaður fannst meðvitundarlaus

Slóvakinn Vladimir Strba fannst látinn í gær, nokkur hundruð metrum fyrir neðan fjallstindinn. Hann var kominn yfir 8.000 metra línuna, sem afmarkar hið svokallað „dauðasvæði“ sem er frægt fyrir sérstaklega illfæra slóða og þunnt loft. Á svipuðum slóðum lést Bandaríkjamaðurinn Roland Yearwood.

Tíbetmegin í fjallinu lést 54 ára gamall maður frá Queensland í Ástralíu. Hann fékk háfjallaveiki í um 7.500 metra hæð og örmagnaðist þegar hann reyndi að koma sér aftur niður í búðir.

Þá hefur indversks göngumanns, Ravi Kumar, verið saknað frá því á laugardag. Samband við hann slitnaði stuttu eftir að hann náði á tindinn og nepalskur leiðsögumaður hans fannst meðvitundarlaus og með alvarleg kalsár í búðum númer 4, í rétt tæplega 8.000 metra hæð. Leit er hafin að Kumar en engar upplýsingar hafa borist frá leitarhópnum í dag.

Í apríllok fórst heimsþekktur svissneskur fjallagarpur, Ueli Steck, á fjallinu og fyrir um tveimur vikum lést þar Min Bahadur Sherchan, 85 ára gamall Nepali, sem hugðist endurheimta titilinn sem elsti Everestfarinn.

Yfir 200 hafa komist á tindinn á tímabilinu

Þrátt fyrir að mikill fjöldi hafi lagt á tindinn um helgina hefur ekki frést af löngum röðum sem hafi tafið göngumenn. Á meðal þeirra sem komust heil og höldnu alla leið upp og niður aftur er Vilborg Arna Gissurardóttir, fyrsta íslenska konan sem stígur fæti á tind þessa hæsta fjalls veraldar.

Búist er við því að meira en eitt hundrað göngumenn geri atlögu að tindinum sunnan megin í dag, áður en veðurhörkurnar taka sig upp aftur á þriðjudag eins og spár gera ráð fyrir.

Yfir 120 göngumenn hafa komist á tind Everest upp suðurhlíðarnar í Nepal á þessu göngutímabili og 80 til viðbótar norðanmegin í Tíbet. Hundruð bíða enn færis áður en rigningartímabilið hefst á svæðinu í júní. Í fyrra fórust fimm á fjallinu og 640 göngumenn komust á toppinn.

Hillary-þrepið hrunið

Þá bárust þær fregnir einnig í gær að Hillary-þrepið svokallaða, 60 metrum fyrir neðan fjallstindinn, væri hrunið. Hillary-þrepið var tólf metra hár lóðréttur bjargveggur og hét eftir Edmund Hillary, sem fyrstur kleif Everest-fjall árið 1953. Það var síðasti erfiði hjallinn á leiðinni á fjallið. Sérfróða hefur grunað það síðan í fyrra að þrepið væri hrunið en gátu ekki staðfest það fyrir snjóþyngslum.

Nú þegar þrepið er horfið verður gangan auðveldari, ekki síst fyrir óvanari göngumenn sem þurfa ekki að klífa upp tólf metra þverhnípt bjarg. Hins vegar er talin hætta á að nýja leiðin skapi flöskuháls sem valdi því að fólk gæti þurft að bíða óþægilega lengi í allra hæstu hæðum.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV