Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þriggja sólahringa útsendingu lokið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þriggja daga maraþonútsendingu RÚV núll og Ung RÚV er lokið. Ætlunin með útsendingunni var að vekja athygli á fíkniefnaneyslu ungmenna á Íslandi og á átakinu Eitt líf, sem samtökin Á allra vörum leggja lið í ár. Snærós Sindradóttir, verkefnastjóri RÚV núll segir að þakklæti sé henni efst í huga eftir útsendinguna.

Hún segir að útsendingin hafi gengið vonum framar og reynslan sé dýrmæt. Þau viti ekki til þess að ráðist hafi verið í svona langa útsendingu áður hér á landi, allaveganna hafi þetta aldrei áður verið gert á RÚV. Hún segir það þó ekki vera það sem skipti máli. 

Vendipunktur í fíkniefnamálum

„Það sem skiptir máli er að við gerðum þetta í tengslum við átakið Eitt líf. Okkur fannst málefnið skipta máli. Nú væri kominn ákveðinn vendipunktur og við yrðum að fara að tala við ungt fólk um skaðsemi fíkniefna, en líka horfa frá því að gefa þeim þessa einfölduðu lausn að segja bara nei við fíkniefnum.“ 

„Frekar þyrftum við að hugsa um hvað samfélagið geti gert til að taka á vanlíðan ungmenna þannig að að þau leiðist ekki út í skyndilausnir, eins og fíkniefni, sem skilji bara eftir sig sviðna jörð,“ sagði hún. 

Þakklæti efst í huga

Snærós segist meyr og mjúk eftir 72ja klukkustunda veru í stúdíói. „Maður hugsar ekki endilega alveg skýrt.“ Hún segir að þakklæti sé henni efst í huga. Þakklæti yfir viðbrögðunum sem þau hafi fengið og þakklæti í garð þeirra hundrað viðmælenda sem komu til þeirra í stúdíóið á meðan á útsendingunni stóð, að ógleymdum kvennakórnum Kötlunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV núll

Margt sem stendur upp úr eftir þrjá daga í beinni

Helst standi upp úr sá mikli fjöldi tónlistarmanna sem gáfu útsendingunni líf og lit. Svo ekki sé minnst á eftirminnileg og sterk viðtöl, til dæmis við Halldóru Jónsdóttur, yfirlækni á bráðageðdeild, um tengsl kannabis og geðrofa.

Þá kom Baldvin Z leikstjóri í stúdíó og ræddi um kvikmyndina Lof mér að falla og hvernig gerð myndarinnar hafði áhrif á hann. Vera Illugadóttir dagskrárgerðarmaður fór yfir sögu verkjalyfsins Oxycontins, sem inniheldur ópíóíða, og markaðssetningu þess.

Einnig vakti saga Sögu Nazari mikla athygli. Þá var rætt við ungmenni um aðgengi að fíkniefnum og sagði Snærós að það hefði verið áhugavert að fá fram þeirra hliðar. „Það stendur hvað mest upp úr hvað við eigum ótrúlegt og opið ungt fólk.“

Lokuð inni í stúdíóinu og sendu út í beinni viðstöðulaust

Á þriðjudagskvöld lokuðu fjórir dagskrárgerðarmenn sig inni í Stúdíó 9 og hófu að senda út í beinni viðstöðulaust. Koju var komið fyrir í skreyttu hljóðverinu svo dagskrárgerðarmenn gætu skipst á að leggja sig. Útsendingin er í tengslum við samtökin Eitt líf, sem voru stofnuð til minningar um Einar Darra Óskarsson, sem varð bráðkvaddur á heimili sínu í fyrra vegna lyfjaeitrunar.

Hafsteinn Vilhelmsson, Helga Margrét Höskuldsdóttir, Mikael Emil Kaaber og Snærós Sindradóttir voru í beinni. Jafet Máni Magnúsarson fór víða á meðan á útsendingunni stóð og útbjó innslög fyrir þáttinn.