Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þriggja fasa tenging kemur í Árneshrepp óháð virkjun

08.12.2019 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Þórisson - Kveikur
Þriggja fasa rafmagnstenging kemur í Árneshrepp burtséð frá því hvort Hvalá í Ófeigsfirði verði virkjuð eða ekki. Virkjunin gæti þó flýtt fyrir og sparað skildinginn.

Í Kveik þar sem fjallað var um Hvalárvirkjun og samfélagið í Árneshreppi kom fram að skortur á þriggja fasa rafmagni stendur í vegi fyrir uppbyggingarmöguleikum í Árneshreppi. Án þess er ekki hægt að hafa þar starfsemi sem krefðist rafmagns umfram það sem dugir til heimabrúks.

Virkjun í Hvalá hefur verið nefnd sem lausn á þeim vanda og að með henni færist uppbyggingamöguleikar nær hendi. Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubú Vestfjarða segir að þegar sé búið að leggja þriggja fasa rafmagn í hreppinn að einhverju leiti. Það verður jafnframt tengt burtséð frá virkjunarframkvæmdum. 

"Það var lagt að hluta til á sínum tíma, en það er ekki orðið tengt við kerfi orkubúsins þannig að það er ennþá í rauninni bara eins fasa rafmagn í Árneshreppi. Það eru plön að tengja það fyrir árið 2030 en það er ekki búið að segja nákvæmlega hvenær það verður," segir hann.

Það gæti því verið hvenær sem er á næstu tíu árum, sem þriggja fasa tenging fæst í hreppinn. Heildarlengd dreifikerfisins sem sér Árneshreppi fyrir rafmagni, frá Selá í Steingrímsfirði er um 85 kílómetrar. Þar af eru um 50 kílómetrar einfasa og þyrfti að endurnýja. Reikna má með að það kosti um 300 til 400 milljónir að ljúka þrífösun.

Hugmyndir hafa þó verið uppi um að tengja rafmagn beint frá Hvalárvirkjun í hreppinn. Þannig mætti bæði sneiða hjá fjárútlátum að einhverju leyti og sleppa við að fara langar leiðir til að ná inn á kerfi Orkubúsins.

Auk þess hafa verið viðræður á milli fyrirtækjanna um að koma vinnurafmagni á svæðið við Hvalá og það yrði þá þriggja fasa, og það myndi augljóslega flýta fyrir þessu,“ segir Elías.

Kort sem sýnir hvar er búið að leggja þriggja fasa línu í Árneshreppi
Um 50 kílómetra línu vantar til þess að tengja þriggja fasa rafmagn í Árneshrepp