Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

„Þrífa þetta fyrir framtíð þessa lands“

Mynd með færslu
 Mynd:
Hópur mótmælenda sópaði og þreif við Hæstarétt af miklum móð í morgun. Nýlegur dómur í grófu ofbeldismáli er ástæða mótmælanna. Hann þykir setja vafasamt fordæmi.

Hópur fólks kom saman við Hæstarétt á níunda tímanum í morgun til að mótmæla nýlegum dómi Hæstaréttar um gróft ofbeldisbrot. Meiri hluti hæstaréttardómara taldi það ekki til kynferðisbrota að stinga fingrum upp í leggöng og endaþarm konu. Eini kvendómarinn skilaði séráliti og var ósammála körlunum fjórum, sem mynduðu meirihluta.

Mótmælendurnir við Hæstarétt í morgun báru ýmis hreinlætisáhöld, svo sem skúringafötur, sópa, tuskur og sápur. Með því vildu þeir sýna táknrænt að þeir væru að skúra út úr Hæstarétti. Mótmælendur, sem voru rúmlega fjörutíu, segja að Hæstiréttur hafi með dómi sínum sett vafasamt fordæmi, að ofbeldi sem ekki fullnægi gerandanum teljist ekki kynferðisofbeldi þótt brotið sé gegn kynfrelsi fórnarlambsins.

Sigríður Kristinsdóttir, var meðal mótmælenda en hún segir dóminn óforsvaranlegan. Sigríður þreif stigahandrið Hæstaréttar af miklum móð þegar fréttamaður náði af henni tali. „Það er ágætt að þrífa skítinn eftir þá. Þetta er virkilegur skítur og það þarf að þrífa það. Það þarf líka að þrífa þetta fyrir framtíð þessa lands. Fyrir bæði pilta og stúlkur í þessu landi. því þetta verður að leiðréttast. Það verður að breyta einhverjum lögum eða eitthvað ef þetta er þannig að þetta þyki rétt.“

Lögreglumenn mættu að Hæstarétti til að skoða veggjakrot á húsnæðinu frá því í nótt og ræddu við mótmælendur en höfðu ekki frekari afskipti af samkomunni.