Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þriðjungur hefur prófað kannabis

18.09.2019 - 07:05
Úr umfjöllun Kveiks um kannabis.
Mynd úr safni.  Mynd: Kveikur - RÚV
Þriðjungur svarenda í nýrri könnun Maskínu hefur neytt eða prófað kannabis eða gras. Helmingur fólks á aldrinum 18 ára til 29 ára hefur neytt eða prófað kannabis. Nærri níu af hverjum tíu, eða um 87 prósent, telja kannabis skaðlegt heilsu og um helmingur telur efnið mjög skaðlegt. Rúmlega tólf prósent telja að kannabis sé ekki skaðlegt. 

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir samtökin Foreldrahús.

Mikill munur á viðhorfi til kannabis eftir aldri

Mikill munur er á viðhorfi fólks til kannabis eftir aldri. Þeir sem yngri eru, eða frá átján ára aldri til þrítugs, telja skaðsemi kannabis minni en þeir sem eru yfir þrítugu.

Rúm tuttugu prósent þeirra sem eru undir þrítugu telja kannabis mjög lítið, eða alls ekki, skaðlegt. Til samanburðar má nefna að rösklega sextán prósent þeirra sem eru 30 til 39 ára og um fimm til tíu prósent þeirra sem eru fjörutíu ára eða eldri telja kannabis mjög lítið, eða alls ekki, skaðlegt.

Í könnuninni segir að ekki sé munur á mati fólks eftir menntun. Þá telji konur frekar að kannabis sé mjög skaðlegt heilsu, en karlar.

 

Yfir helmingur ungs fólks hefur prófað kannabis

Þriðjungur þeirra sem tóku þátt í könnun Maskínu hafði neytt eða prófað kannabis eða gras. Rúmlega þrettán prósent þátttakenda höfðu ekki prófað þau vímuefni sem spurt var um, þar á meðal áfengi. 

Mikill munur var eftir aldri. Rúmlega helmingur þátttakenda á aldrinum 18 til 29 ára hafði neytt eða prófað kannabis. Minna var um að þeir sem eldri eru hefðu prófað efnið. Um fjórtán prósent þeirra sem eru sextíu ára og eldri höfðu neytt eða prófað kannabis. 

 

Rúmlega áttatíu prósent þátttakenda höfðu neytt áfengis. Um tólf til þrettán prósent höfðu prófað amfetamín og kókaín. Tæplega sex prósent þeirra höfðu prófað MDMA og rúmlega fjögur prósent höfðu neytt lyfseðilsskyldra lyfja í þeim tilgangi að komast í vímu.

Eftir því sem fólk er yngra er líklegra að það hafi prófað aðra vímugjafa en áfengi eða kannabis, amfetamín, kókaín, sveppi, MDMA, LSD og lyfseðilsskyld lyf, samkvæmt könnuninni.

 

Framkvæmdu könnunina fyrir Foreldrahús

Maskína gerði könnunina fyrir Foreldrahús. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er hópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri.

Í könnuninni segir að við úrvinnslu hafi gögnin verið vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svari endurspegli þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu. Svarendur voru 897 talsins.

Foreldrahús safnar fyrir nýju húsi

Foreldrahús var stofnað af samtökunum Vímulausri æsku árið 1999. Nú tuttugu árum eftir stofnun samtakanna er safnað fyrir nýju húsi, segir í fréttatilkynningu frá Foreldrahúsi.

Foreldrahús styður fjölskyldur barna sem glíma við vímuefnavanda og áhættuhegðun. Þar er fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar og foreldranámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga og stuðningsmeðferð fyrir ungmenni í vímuefnavanda. Þá er ávallt opið fyrir síma og foreldrar geta hringt inn og fengið ráðgjöf og stuðning frá fagfólki.