Þriðjungur háskólanema þunglyndur

Mynd: Pixabay / Pixabay
Um þriðjungur háskólanema hér á landi mælist með þunglyndi. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar á geðheilsu nemenda við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri.

„Það markverðasta sem kom fram hjá okkur er að stór hluti af háskólanemum er að glíma við andleg veikindi, sérstaklega kvíða- og þunglyndisvanda. Um 34 prósent nemenda mældust yfir klínískum mörkum þunglyndis og um 19 prósent yfir klínískum mörkum kvíða,“ segir Andri Hauksteinn Oddsson, sálfræðingur. Rætt var við hann og Halldóru Björgu Rafnsdóttur, sálfræðing, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Einkennin sem mældust voru frá því að vera miðlungs alvarleg í að vera alvarleg. Andri bendir á að því sé bilið nokkuð breitt en engu að síður hafi svo hátt hlutfall mælst yfir þeim klínísku mörkum sem voru notuð við rannsóknina. „Þannig að þetta er svolítið sláandi og eitthvað sem þarf að skoða betur í framhaldinu,“ segir hann.

Að sögn Halldóru eru niðurstöðurnar svipaðar erlendum rannsóknum. Hér á landi hafi geðheilsa þessa hóps ekki verið skoðuð áður. „Yfirleitt er skoðað hjá yngri og eldri en ekki þetta aldursbil,“ segir hún. Andri segir að oft sé litið á háskólanema sem forréttindahóp en umhverfið í háskóla sé engu að síður krefjandi. Háskólanemendur þurfi að standa skil á krefjandi verkefnum reglulega og taka próf sem geti valdið kvíða.

Oft gerir fólk sér ekki grein fyrir að einkennum geðraskana og því slæmt að það leiti sér ekki aðstoðar, að sögn Halldóru. Brýnt sé að nemendum standi sálfræðiþjónusta til boða innan háskólanna. 

„Það er alveg sláandi að árið 2017 upplifi fólk ákveðna skömm og vanmátt. Þetta er náttúrulega bara lasleiki eins og hvað annað. Þetta er örugglega að breytast en betur má ef duga skal. Við þurfum að reyna að hamra betur á því að það sé ekkert að því að leita sér aðstoðar,“ segir Andri.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar síðar í dag á Geðheilbrigðisdögum Háskólans í Reykjavík.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi