Þriðjungur bílstjóra ekki búinn að átta sig

24.07.2019 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Hámarskhraði á Hringbraut var nýlega lækkaður úr 50 niður í 40 en þriðjungur bílstjóra lætur sem ekkert sé. Samgöngustjóri Reykjavíkurborgar vonar að hraðaglaðir ökumenn sjái að sér og aðhald lögreglu hafi áhrif. Hann boðar þó jafnframt frekari aðgerðir til að halda þeim við efnið. 

 

Ítrekað hafa orðið slys á gatnamótum við Hringbraut. Íbúar hafa síðastliðin ár viðrað áhyggjur sínar og var mörgum nóg boðið þegar ekið var á ungt barn í byrjun árs. Í kjölfar slyssins var komið á gangbrautarvörslu á gatnamótunum þar sem slysið varð. „Skrefið var tekið núna í janúar, þá var samþykkt að lækka hámarkshraðann úr 50 í 40 kílómetrahraða á klukkustund og fara í ýmsar aðrar aðgerðir. Það er svo auglýst í stjórnartíðindum eftir tillögu lögreglustjóra og skiltin sett upp um daginn, í júní,“ segir Þorsteinn Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Þorsteinn Hermannsson, samgöngustjóri.

 

Tæplega hundrað fá háa sekt

Hámarkshraðinn var lækkaður á kafla sem nær frá Ánanaustum að Sæmundargötu. Stór hluti bílstjóra virðist þó ekki hafa kveikt á perunni. Lögregla hyggst fylgjast sérstaklega vel með hraða ökumanna um Hringbraut á næstunni. Nýlegar hraðamælingar sýndu að tæpur þriðjungur þeirra ekur nú of greitt. Það gerðu einungis fjögur til átta prósent ökumanna þegar leyfilegt var að keyra á 50. Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar lögreglu, segir merkingar góðar en að samt keyri fólk bara eins og ekkert hafi í skorist. Í síðustu mælingu hafi meðalhraði ökumanna verið 45 kílómetrar á klukkustund en meðalhraði þeirra sem brutu lögin var 54 kílómetrar á klukkustund. Tæplega hundrað bílstjórar mega búast við að þurfa að greiða 25 til 30 þúsund krónur í sekt. 

Þorsteinn vonar að aðgerðir lögreglu ýti við ökumönnum en segir framkvæmdum við brautina ekki lokið. Fyrir haustið stendur til að setja upp skilti sem blikka ef fólk ekur of hratt og á næsta ári á að bæta lýsingu á gangbrautum, endurnýja umferðarljósabúnað og setja upp hraðamyndavélar. Ekki stendur til að þrengja götuna en hugsanlega verða göngu- og hjólaleiðir yfir götuna hækkaðar lítillega. Ásýnd götunnar á að breytast þannig að það verði augljóst að hún sé ekki venjuleg 50 gata heldur gata þar sem umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er mikil. 

„VIð erum að auka eftirlit og bæta það þannig að við munum ná þessu hlutfalli niður hef ég fulla trú á,“ segir Þorsteinn. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi