Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þriðju þingkosningarnar í Ísrael á innan við ári

02.03.2020 - 10:09
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Ísraelar ganga til þingkosninga í dag, í þriðja skipti á innan við ári. Kosningar voru haldnar í Ísrael í apríl og september og í báðum þeirra fengu Likud-flokkur Benjamins Netanyahus forsætisráðherra, og Bláhvíti-flokkurinn, flokkur Benny Gantz, langflest atkvæði eða um fjórðung hvor flokkur. Hvorugum tókst þó að tryggja sér nægilegan stuðning til að mynda nýja stjórn.

Samkvæmt skoðanakönnunum stefnir í sömu pattstöðu og einkennt hefur ísraelsk stjórnmál undanfarið. Hvorugur flokkur fær nægilega mörg atkvæði til að mynda meirihluta með hefðbundnum samstarfsflokkum. Alls bjóða 23 flokkar fram í þingkosningunum.

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan fimm að íslenskum tíma og verður lokað klukkan átta í kvöld. Búist er við fyrstu tölum fljótlega eftir átta. Þá er gert ráð fyrir að kosningaþátttaka verði minni en oft áður sökum útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Þeir kjósendur sem eru í sóttkví geta kosið á sérútbúnum kosningastöðum mæti þeir með andlitsgrímur og sýni ekki einkenni veikinda.

Netanyahu hefur átt undir högg að sækja í kosningabaráttunni vegna ásakana um spillingu. Réttarhöld yfir Netanyahu hefjast 17. mars en hann er ákærður fyrir fjármálaspillingu, umboðssvik og mútuþægni. Gantz hefur ítrekað kallað Netanyahu „sakborninginn“ vegna þessa og segir hann sækjast eftir endurkosningu fyrst og fremst til að búa svo um hnútana að ekki verði hægt að dæma hann.