Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þriðja tilfellið af COVID-19 staðfest - 300 í sóttkví

01.03.2020 - 21:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kona á fimmtugsaldri greindist í kvöld með COVID-19 kórónaveiruna. Hún kom til landsins með flugi Icelandair frá München en hafði verið á skíðum á Norður-Ítalíu. Þetta er þriðji Íslendingurinn sem greinist með veiruna en fyrr í dag var greint frá því að karlmaður á sextugsaldri væri með veiruna. Líðan þeirra beggja er góð en þau sýna dæmigerð einkenni sjúkdómsins. Allir sem hafa greinst með veiruna eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu en um 300 manns eru nú í sóttkví heima hjá sér.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samhæfingarmiðstöðinni í kvöld. Þriðji Íslendingurinn, karlmaður á fimmtugsaldri, greindist með veiruna á föstudag. Hann er í einangrun á smitsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi en hann kom til landsins 22. febrúar.

Rögnvaldur Ólafsson, deildarstjóri almannavarna, segir í samtali við fréttastofu að hefðbundið ferli hafi farið í gang. Konan er núna í einangrun á heimili sínu og verður í lágmarkssamskiptum við aðra fjölskyldumeðlimi.  Ekki er von á neinum nýjum niðurstöðum í kvöld úr sýnatökum en þær ættu væntanlega að liggja fyrir í hádeginu á morgun.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að þeim hafi ekki tekist að ná tali af öðrum farþegum í München-fluginu.  Verið sé að afla þeirra upplýsinga. Fyrst þurfi að tala við þá farþega sem komu frá Veróna í gær og er sú vinna að klárast.  Víðir segir að lögð verði áhersla á að ná tali af þeim sem sátu í tveimur sætaröðum fyrir framan konuna og tveimur sætaröðum fyrir aftan. Sýnið úr konunni var tekið seinnipartinn í dag ásamt nokkrum öðrum.

Sóttvarnalæknir hefur, í samráð við almannavarnir og borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, skilgreint  Ítalíu sem hættusvæði. Þýskaland er hins vegar ekki skilgreint hættusvæði. Því er ekki talin þörf á sóttkví fyrir þá farþega sem komu frá Munchen með Icelandair í gær nema þá sem komu frá Ítalíu. 

Hins vegar mun smitrannsóknateymi almannavarna og sóttvarnalæknis hafa samband við þá farþega sem útsettir voru fyrir smiti í flugvélinni og upplýsa þá um helstu staðreyndir í tengslum við COVID-19, persónulegt hreinlæti og síma 1700.

Fram kemur í tilkynningu frá samhæfingarstöðinni að stjórnendur Icelandair hafi fundað með sóttvarnalækni og fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í kvöld vegna málsins. Á meðal þess sem var ákveðið á þeim fundi var að áhafnir Icelandair munu dreifa upplýsingamiðum til allra þeirra sem ferðast munu með flugfélaginu til Íslands.

Flugfélagið hefur ákveðið að áhöfnin í vél Icelandair sem kom frá Veróna í gær fari í fjórtán daga sóttkví sem og starfsmenn flugþjónustu sem einnig voru með í för. Flugmennirnir þurfa hins vegar ekki að fara í sóttkví, samkvæmt skriflegu svari upplýsingafulltrúa Icelandair við fyrirspurn fréttastofu.

Fréttin var uppfærð 21:39

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV