Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þreytt á ágangi og sóðaskap við Hrunalaug

05.07.2015 - 14:56
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube - RÚV
Landeigendur í Hruna í Hrunamannahreppi eru langþreyttir á ágangi og sóðaskap við náttúrulaug á landi þeirra. Unnar hafi verið skemmdir á aldagamalli lauginni. Komið hefur til tals að jafna Hrunalaug við jörðu.

„Ágangurinn þarna hefur verið ansi mikill og oft fjölmennt. Það sem okkur hefur sviðið mest er umgengnin og líka það að það hafi verið unnin skemmdarverk þarna,“ segir Helena Eiríksdóttir sem uppalin er á bænum Hruna. Hún sagði fyrst frá málinu í samtali við MBL.

„Það eru þarna gamlar hleðslur, elsti hluti laugarinnar er upphlaðinn af langafa mínum sem byrjaði að hlaða þetta fyrir aldamótin 1900,“ en ásókn í laugina hefur aukist mikið eftir hún skaut upp kollinum á hinum ýmsu listum.

Dæmi eru um að smærri ferðaþjónustufyrirtæki hafi gert út á ferðir þangað. Helena hefur sjálf verið á staðnum þegar leiðsögumenn hafa komið þangað með hópa. Segir hún að jafnvel hafi komið til tals að jafna laugina við jörðu.

„Það var kannski svolítið orðum aukið en auðvitað hefur það komið til tals. Þegar umgengin hefur verið hvað verst hefur komið til tals hvað eigi að gera við þetta. Nú um daginn bauðst bóndinn á næsta bæ að koma með haugsuguna og dreifa svolítið af kúamykju þarna í nágrennið. En það þornar nú bara og lyktin hverfur. En það var ágætis hugmynd.“

Fjölskyldan vill fyrst fremst að fólk gangi sómasamlega um og virði reglur um að tjalda ekki á svæðinu. Því sé komið vel til skila á skilti á svæðinu en þeim reglum hafi ekki verið fylgt.

Helena bendir líka á aðra náttúrulaug, Gömlu laugina, á Flúðum sem sé sérstaklega gerð til að taka á móti ferðamönnum. 

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV