Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrettánda bensínstöðin opnuð á Akureyri

05.11.2019 - 17:44
Mynd: Grafík / RÚV
Bæjarfulltrúi á Akureyri vill að bæjarstjórn beiti sér fyrir fækkun bensínstöðva í bænum. Verið er að byggja þrettándu bensínstöðina á Akureyri.

Í Reykjavík er ein bensínstöð á hverja tæplega 3000 íbúa og í Lundúnum er ein stöð fyrir hverja tíu þúsund íbúa. Á Akureyri eru hins vegar um 1500 íbúar um hverja bensínstöð. Ekkert lát virðist vera á fjölgun stöðva í bænum því hafnar eru framkvæmdir við nýja bensínstöð Olís við Sjafnargötu.

Bæjarfulltrúi vill fækka stöðvum

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna segir bílamenningu mjög ríkjandi á Akureyri. Til marks um það hafi fólk með viðkvæm öndunarfæri og börn verið vöruð við því að vera úti í vikunni vegna svifryksmengunar. Hún leggur til að bæjarstjórn beiti sér fyrir því að stöðvum verði fækkað og segir eðlilegt að miða við að hvert olíufyrirtæki hafi eina stöð í bæjarlandinu.

„Það er enginn greinlega kjarkur hjá bæjarstjórninni til þess að takast á við málið og hugsa það hvernig við ætlum að nýta þessi pláss sem að fara undir bensínstöðvar. Það er gríðarlega mikil áhersla á bílaeign hérna og það að allir þurfa að vera á bíl. Ég gleymdi nestinu heima og ég er á leiðinni á fund og ég fattaði það að ég þurfti að snúa við og ná mér í banana því ég get ekki keypt banana í miðbænum á Akureyri en ég get tekið bensín, segir Sóley. 

„Ekkert endilega óeðlilegt“

Tryggvi Þór Ingvarsson, formaður skipulagsráðs segir að þrengingar að starfsstöð Olís við Tryggvabraut hafi valdið því að ákveðið var að úthluta fyrirtækinu lóð við Sjafnargötu. 

Finnst þér eðlilegt að á Akureyri séu þrettán bensínstöðvar?

„Já og nei, þetta hefur sínar sögulegu skýringar. Það er kannski ekkert eðlilegt að það séu hérna 1500 manns bak við hverja bensínstöð en það er heldur ekkert endilega óeðlilegt.“