Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þremur árum eftir Rana Plaza slysið

26.04.2016 - 14:16
Mynd: - / wikipedia
Í slysinu í fataverksmiðjunni í Bangladesh létust meira en 1000 manns og yfir 2500 slösuðust. Stefán Gíslason fjallar í pistli sínum í dag um hverju það breytti.

 

Í dag halda Íslendingar upp á dag umhverfisins. Aðrar þjóðir halda reyndar upp á dag umhverfisins 5. júní, en sá dagur var á sínum tíma ekki talinn henta séríslenskum aðstæðum. Þess vegna völdu Íslendingar sér annan dag, jafnvel þótt umhverfið sé það sama. En auðvitað er vel við hæfi að þessi séríslenski dagur sé fæðingardagur Sveins Pálssonar, náttúrufræðings, sem er einmitt í dag.

 

Síðastliðinn föstudag var svo Dagur jarðar. Íslendingar héldu upp á hann rétt eins og margar aðrar þjóðir, m.a. með því að undirrita Parísarsamkomulagið um aðgerðir í loftslagsmálum. En þessi pistill fjallar hvorki um Dag jarðar, dag umhverfisins á Íslandi eða dag umhverfisins í útlöndum, heldur fjallar hann um tískubyltingardaginn. Í gær voru nefnilega liðin þrjú ár frá Rana Plaza slysinu í Dakka í Bangladesh, en þar hrundi fataverksmiðja þann 24. apríl 2013 með þeim afleiðingum að 1.134 manneskjur týndu lífi og yfir 2.500 slösuðust.

 

Rana Plaza slysið er stærsta slysið í sögu fataframleiðslu í heiminum, og er þar þó af nógu að taka, því að í þróunarlöndunum vinnur fjöldi verkafólks við skelfilegar aðstæður við framleiðslu á fötum fyrir Vesturlandabúa sem hugsa meira um að dótið sem þeir kaupa sé ódýrt en að það sé framleitt við mannsæmandi aðstæður. Í þessum heimi segir fátt af einum. Það vekur sem sagt enga sérstaka athygli þótt einn og einn verkamaður eða verkakona hrökkvi upp af fyrir aldur fram vegna óviðunandi aðbúnaðar og öryggis á vinnustað, en þegar 1.134 deyja á einu bretti getur enginn látið sem ekkert sé. Svona stórir og skelfilegir atburðir eru eins og háværar vekjaraklukkur í heimssögunni, svo háværar að það er nánast útilokað að snúa sér strax á hina hliðina og láta sem ekkert sé.

 

Í gær voru sem fyrr segir liðin þrjú ár frá Rana Plaza slysinu og þess vegna er sérstök ástæða til að líta um öxl og velta því fyrir sér hverju þetta hafi breytt, þ.e.a.s. hvort greina megi einhverjar varanlegar breytingar til hins betra, eða hvort almennt sinnuleysi hafi kannski búið um sig á nýjan leik í hugum þeirra sem hafa vald til þess að breyta. Eru menn sem sagt enn vakandi, eða eru flestir búnir að gleyma atburðunum í Dakka og liggja nú sofandi á hinu eyranu og bíða eftir að næsta klukka hringi inn nýtt slys af stærri gerðinni?

 

Síðastliðinn fimmtudag birti Reuters samantekt á stöðu mála í fataiðnaðinum í tilefni af þriggja ára afmæli Rana Plaza slyssins, ef hægt er að tala um afmæli í þessu sambandi. Meginniðurstaða þessarar samantektar er jákvæð, þ.e.a.s. sú að réttindi og öryggi verkafólks séu hærra á forgangslistanum nú en fyrir slysið. Fataframleiðendur eru greinilega meðvitaðri um vandann en þeir voru áður, gagnsæi í greininni hefur aukist og ýmsar breytingar hafa verið gerðar á löggjöf til að koma þessum málum í betra horf. Hins vegar virðist ganga hægt að lagfæra það sem í reynd þarf lagfæra í aðfangakeðjunni frá starfsfólkinu á gólfinu til okkar sem að lokum kaupum fötin og göngum í þeim eins og ekkert hafi í skorist.

 

Í desembermánuði síðastliðnum kom út skýrsla, sem Sarah Labowitz, aðstoðarfram-kvæmdastjóri Viðskipta- og mannréttindastofunnar við Stern viðskiptaháskólann í New York, tók saman um gang mála eftir Rana Plaza slysið. Athuganir Söru benda til að sitthvað hafi áunnist í réttindum og kjörum starfsmanna í fataverksmiðjum en minna hafi verið sinnt um ástand bygginga, eldvarnir og vinnuumhverfi inni í verksmiðjunum. Þar hafi líka skort fjármagn til að ráðast í áþreifanlegar úrbætur, þrátt fyrir loforð um að leggja slíkt fjármagn til. Þegar á heildina er litið hafi ekki nóg verið að gert.

 

Árlegar tekjur fataiðnaðarins í Bangladesh eru taldar vera um 25 milljarðar dollara og af því sem framleitt er eru um 60% flutt út til Evrópu, 23% til Bandaríkjanna og 5% til Kanada. Maður þarf svo sem ekki að velta málum lengi fyrir sér til að svara spurningunni um það hvers vegna vestrænir fataframleiðendur kjósi að láta framleiða fyrir sig vörur í Bangladesh. Þar koma hagstæðir tollasamningar við sögu, og svo spillir ekki fyrir að lágmarkslaun verkamanna í fataiðnaði eru þar um 68 Bandaríkjadalir á mánuði eða um 8.500 íslenskar krónur, en í Kína, sem er svo sem ekki heldur talið til hálaunalanda, eru lágmarkslaunin um 280 dollarar á mánuði eða um 35.000 krónur.

 

Það má segja, vestrænum fataframleiðendum til afsökunar, að það sé hægara sagt en gert að ganga úr skugga um að allt sé með felldu í verksmiðjunum sem framleiða fyrir þá fötin. Verksmiðjurnar í Rana Plaza byggingunni virtust t.d. vera með allt sitt á hreinu, en seinna kom í ljós að starfsleyfi höfðu verið fölsuð og þrjár hæðir höfðu verið byggðar ofan á húsið án tilskilinna leyfa.

 

Slysið í Rana Plaza hafði það m.a. í för með sér að til urðu tveir alþjóðlegir hópar fataframleiðenda sem ætlað var að leggja mat á stöðu öryggismála í fataverksmiðjum í Bangladesh og útvega fjármagn til nauðsynlegra úrbóta. Þannig mynduðu fatakeðjur í Norður-Ameríku Samtök um vinnuöryggi í Bangladesh og flestar fatakeðjur í Evrópu undirrituðu sérstaka yfirlýsingu um eldvarnir og öryggi bygginga í Bangladesh. Þessi hópur hefur eftirlit með rúmlega 1.600 verksmiðjum sem framleiða m.a. fyrir aðila á borð við H&M, Marks & Spencer og Primark og hefur gert aðgerðaáætlanir um úrbætur á burðarþoli, raflögnum og eldvörnum í flestum þessara verksmiðja. En núna, þremur árum seinna, eru um 70% af áformuðum verkum á eftir áætlun að því er fram kemur á heimasíðu hópsins. Það gengur sem sagt ekkert allt of vel að mjaka málum til betri vegar, þrátt fyrir góðan vilja. Og svo snýst þetta auðvitað ekki bara um Bangladesh. Sumir vilja t.d. meina að sambærilegar verksmiðjur í Pakistan og Indlandi séu tifandi tímasprengjur, þar sem spilling gerir það að verkum að skjölin segja eitt og raunveruleikinn annað.

 

Sjálfsagt erum við öll sammála um að fatakeðjur á Vesturlöndum verði að gera kröfur til birgjanna sinna og finna leiðir til að fylgja kröfunum eftir. En við sem kaupum fötin þurfum líka að muna að það erum við sem ráðum þegar upp er staðið. Í reynd mun fátt breytast nema við gerum sjálf kröfur um að vörurnar okkar séu framleiddar á sómasamlegan hátt, jafnvel þótt þær kosti örlítið meira fyrir vikið. Tískubyltingardagurinn sem ég minntist á í upphafi þessa pistils er einmitt haldinn til að minna okkur á þetta mikilvæga hlutverk. Þetta er þriðja árið í röð sem dagurinn er haldinn. Nú er þetta reyndar orðin heil vika, nánar tiltekið síðasta vika, frá 18. til 24. apríl. Að vikunni stendur alþjóðleg hreyfing með höfuðstöðvar í Bretlandi, sprottin upp úr hugmyndum breska hönnuðarins Carry Somers. Í tískubyltingarvikunni var fólk hvatt til að setja sjálfsmynd af sér á Instagram eða Twitter, gjarnan í úthverfum fötum til að vörumerkið sjáist, merkja myndina með myllumerkinu eða hashtagginu #whomademyclothes og með nafni framleiðandans. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar er einfaldast að skoða hashtaggið #whomademyclothes á samfélagsmiðlunum og sjá hvað er að gerast í málinu. Sömuleiðis er upplagt að heimsækja vefsíðuna fashionrevolution.org þar sem hægt er fræðast miklu meira en af einum útvarpspistli.

 

Ef við viljum ekki að slys á borð við það sem varð í Rana Plaza fyrir þremur árum endurtaki sig þurfum við sjálf að taka okkur saman í andlitinu og „vera breytingin“, eins og Mahatma Gandhi orðaði það á sínum tíma.

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður