Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þorsteinn Már víkur meðan á rannsókn stendur

14.11.2019 - 10:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Þorsteinn Már Baldvinsson víkur tímabundið úr starfi forstjóra Samherja meðan beðið er eftir helstu niðurstöðum úr innri rannsókn fyrirtækisins á starfsemi dótturfélags Samherja í Namibíu. Þetta gerir hann í samráði við stjórn Samherja samkvæmt yfirlýsingu sem birtist á vef fyrirtækisins klukkan tíu. Þetta gerist hálfum öðrum sólarhring eftir að Kveikur og Stundin greindu frá háum greiðslum Samherja til áhrifamanna í Namibíu og venslamanna þeirra til að komast yfir eftirsóttan kvóta.

Björgólfur Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, hefur tekið við stöðu forstjóra tímabundið. Greint er frá þessum vendingum í færslu á vef Samherja. Þar er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni, stjórnarformanni Samherja, að þetta sé mikilvægt skref til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknar alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein á starfseminni í Namibíu. Kveikur og Stundin lýstu því hvernig félög Samherja hefðu borgað háttsettum mönnum í Namibíu háar fjárhæðir auk þess að koma greiðslum þannig fyrir að sem minnstir skattar séu greiddir af starfseminni í Namibíu. Það var gert í gegnum félög á aflandseyjum.

Rannsókn Wikborg Rein heyrir beint undir stjórn Samherja samkvæmt yfirlýsingunni. Þar segir að engin yfirvöld hafi haft samband við Samherja en heitið samstarfi við þau stjórnvöld „sem kunna að sýna starfsemi Samherja á Íslandi, í Namibíu eða annars staðar áhuga“.

Aftur til Samherja

Björgólfur Jóhannsson er ekki ókunnugur Samherja. Hann vann þar á árunum 1996 til 1999 sem yfirmaður nýsköpunar- og þróunarsviðs, eftir að hafa verið fjármálastjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyrar og áður en hann varð framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem er að stórum hluta í eigu Samherja og síðar forstjóri Icelandic Group og formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna. Í seinni tíð er hann þekktastur fyrir störf sín sem forstjóri Icelandair Group en sagði starfi sínu lausu í ljósi slæmrar afkomu fyrirtækisins í fyrra.

Eftir brotthvarfið frá Icelandair í fyrra heyrðist sú kenning að Björgólfur yrði næsti forstjóri Eimskipa, sem ekkert varð af. Tengingin var sú að Björgólfur hefði unnið náið með Þorsteini Má, forstjóra Samherja, í gegnum tíðina og þá var Samherji kominn með fjórðungs hlut í Eimskip.

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson - RÚV

Ekki hafa  fengist viðtöl við Þorstein Má eftir uppljóstranir um greiðslur Samherjafélaga til áhrifamanna í Namibíu sem hefur verið lýst sem mútum og ólöglegum greiðslum, meðal annars af fulltrúa samtaka sem berjast gegn spillingu og fyrrverandi starfsmanni Samherja sem lét Wikileaks gögnin í hendur. 

Samherji hefur beint sök að starfsmanninum fyrrverandi, Jóhannesi Stefánssyni, en neitað aðkomu eigin stjórnenda að málinu. Þó hefur verið bent á að skjölin sýna áframhaldandi greiðslur eftir að Jóhannes hætti hjá Samherja árið 2016. 

Þorsteinn Már hafnaði viðtölum við Kveik meðan fréttamenn fréttaskýringaþáttarins unnu að rannsókn málsins. Hann bauð fund í Lundúnum, og síðar á Íslandi, þar sem yrðu leiddar fram bakgrunnsupplýsingar sem ekki mætti vitna til. Því var hafnað með þeim rökum fundarboð bak við luktar dyr vær ekki eðlilegt eða gagnsætt ferli sem fjölmiðill geti fallist á að taka þátt í.

Fréttin var uppfærð klukkan 10:23.