Þorsteinn Már forstjóri Samherja á ný

27.03.2020 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Þorsteinn Már Baldvinsson tekur á ný við stjórnartaumunum í Samherja, að því er kemur fram í fréttatilkynningu félagsins. Stjórn Samherja ákvað á fundi sínum í dag að Þorsteinn snúi aftur og muni gegna starfi forstjóra við hlið Björgólfs Jóhannssonar sem gegnir forstjórastarfi sínu áfram þar til annað verður ákveðið. Búast megi við töfum á rannsókn sem félagið lætur nú vinna um starfsemina í Namibíu.

Í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kveiks á starfsemi Samherja í Namibíu hætti Þorsteinn Már tímabundið sem forstjóri. Í tilkynningu félagsins í dag segir að rannsókn sem Samherji hafi óskað eftir að norska lögmannsstofan Wikborg Rein ynni sé veg á veg komin. Rannsókninni verði haldið áfram en þó megi búast við töfum á henni „vegna þeirrar fáheyrðu stöðu sem er uppi er enn stefnt að því að ljúka henni í vor. Verða niðurstöðurnar kynntar fyrir stjórn Samherja og þar til bærum stjórnvöldum strax í kjölfarið,“ segir í tilkynningu Samherja.

Þá segir að matvælaframleiðsla skipti miklu máli við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu. „Þorsteinn Már Baldvinsson fær það verkefni að leiða aðgerðir Samherja vegna þeirra fáheyrðu aðstæðna sem eru uppi vegna útbreiðslu Covid-19,“ er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni, stjórnarformanni Samherja í fréttatilkynningu. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV