Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þorsteinn: Ég bara skil þetta ekki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þorsteinn: Ég bara skil þetta ekki

11.09.2016 - 20:43
Söguleg stund var í Ríó í gær þegar Þorsteinn Halldórsson varð fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í bogfimi á Ólympíumóti fatlaðra. Þorsteinn skaut þá um röðun keppenda fyrir fyrstu umferð. Sá efsti mætir þeim neðsta í fyrstu umferðinni og svo koll af kolli.

Það er skemmst frá því að segja að það gekk allt á afturfótunum hjá Þorsteini. Hann náði aðeins 599 stigum sem er langt undir hans meðaltali og varð hann í 31. og neðsta sæti. Þar sem keppendur eru 31 keppa 30 manns um að komast í 16 manna úrslit og þangað fer beint sá stigahæsti í gær. 

Mótherji Þorsteins í fyrstu umferð verður því afar fær atvinnumaður í bogfimi fatlaðra, Bandaríkjamaðurinn Kevin Polish sem varð í 2. sæti með 685 stig. Polish er handalaus og skýtur af boganum með fætinum.

Þorsteinn var afar óhress með frammistöðu sína í viðtali við RÚV og sagðist hreinlega ekki skilja hvað fór úrskeiðis. Allt hafi gengið vel í undirbúningnum en þegar kom að alvörunni þá hafi fátt gengið upp hjá honum. „Ég bara skil þetta ekki en ljósi punkturinn er að ég er að fara að keppa við þann flottasta. En ég er ekki að fara að vinna hann. Ég veit það.“

Þorsteinn tryggði sig inn á Ólympíumótið á dramatískan hátt í sumar eða með síðustu örinni á móti í Tékklandi.