Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þórshafnarbúar brugðust hratt við ákalli um aðstoð

26.03.2020 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Samfélagið á Þórshöfn brást skjótt við ákalli frá hjúkrunar- og dvalarheimilinu Nausti um aðstoð við kaup á búnaði til að takast á við hugsanlegt kórónuveirusmit. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hefur lagt átakinu lið.

Í gær skrifaði Sólrún Arney Siggeirsdóttir, hjúkrunarfostjóri Nausts, grein á vef Langanesbyggðar undir yfirskriftinni: „Ákall til samfélagsins.“ Þar var kallað eftir aðstoð við kaup á nauðsynlegum búnaði. Þar minnti hún meðal annars á hve íbúar á Nausti væru í miklum áhættuhópi.

Ástæða til að fjölga súrefnisvélum og öðrum búnaði

„Sökum þess er rík ástæða til þess að fjölga súrefnisvélum heimilanna til að vera betur í stakk búin til að takast á við þennan vágest. Þó svo að daglegar aðgerðir okkar og undirbúningur taki mið af því að halda honum frá okkur þurfum við að vera undir allt búin. Eins er ýmis annar búnaður sem gæti aðstoðað okkur í þessu verkefni, og er hægt að nefna morfíndælu, vökvadælu og loftdýnu,“ skrifaði hún meðal annars.

„Mun hjálpa okkur gríðarlega mikið“

Sólrún segir að viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa. Nú sólarhring eftir að ákallið var sent, hafi þeim borist fjármagn sem dugi til að kaupa tvær súrefnisvélar og eina loftdýnu. Þá séu enn að berast styrkir. „Þetta mun hjálpa okkur gríðarlega mikið ef til þess kemur að einhver veikist vegna veirunnar. Annars snýr öll okkar vinna að því að forðast það að hún komist til okkar,“ segir hún.

Framlög frá fólki með enga tengingu við staðinn

Og hún segir þetta fyrirtæki og einstaklinga í samfélaginu á Þórshöfn og nágrenni, en einnig brottflutta. „Svo bárust framlög frá nokkrum einstaklingum sem hafa ekki mikla tengingu hingað. Nánast ókunnugt fólk.“