Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þorlákshöfn brátt klár fyrir nýja Herjólf

23.09.2019 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Vegagerðin vinnur að bráðabirgðalausnum á höfninni í Þorlákshöfn svo nýi Herjólfur geti lagst þar að bryggju. Að sögn Fannars Gíslasonar hjá Vegagerðinni er vonast til þess að lausnirnar verði klárar síðar í vikunni. Herjólfur IV ætti því að geta siglt þangað þegar ófært verður í Landeyjahöfn.

Herjólfur IV hefur verið í slipp síðan 18. September. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir skipið að líkindum verða tilbúið eftir um tvær vikur. Þá ætti að vera orðið fært fyrir það til Þorlákshafnar.

Gamli Herjólfur, sá þriðji í röðinni, hefur verið til taks í Vestmannaeyjum ef á þarf að halda. Hann siglir nú á milli lands og eyja á meðan nýi er í slippnum. Eldri Herjólfur fer svo sjálfur í slipp þegar nýi kemur þaðan. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru nokkrar áhyggjur meðal Eyjamanna vegna þessa, þar sem höfnin í Þorlákshöfn var ekki búin til þess að taka á móti nýja Herjólfi. Ef allt fer samkvæmt óskum ætti nýi Herjólfur að geta siglt til Þorlákshafnar þegar hann kemur úr slipp.

Þar til seint í síðasta mánuði var veður til siglinga frá Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar einstaklega gott. Þegar veður tók að versna var ljóst að nýi Herjólfur gæti ekki siglt til Landeyjahafnar, og varð því að ræsa gamla af stað til að sigla til Þorlákshafnar. Þegar sá nýi tekur til við að sigla til Þorlákshafnar verður helsti munurinn sá að aðeins 30 kojur eru í Herjólfi IV miðað við 90 í þeim eldri, að sögn Guðbjarts Ellerts.

Guðbjartur Ellert segir eðlilegt að einhverjir hnökrar verði þegar nýtt skip er tekið í notkun. Segir hann það í raun hafa komið á óvart að það hafi þurft að takast á við minna en menn héldu í fyrstu. Skipið er tölvustýrt að nánast öllu leyti. Verið er að aðlaga tölvukerfið aðstæðum á milli lands og eyja, meðal annars með því að hraða svörun þess. Vonast er til þess að svörunin verði aðeins nokkur sekúndubrot, en hingað til hafa liðið allmargar sekúndur frá því kallað er eftir aðgerð og þar til skipið svarar. Því hafi skipstjórar stundum lent í því að stýrikerfi skipsins væri rétt að klára síðustu skipun þegar þeir vildu breyta henni.

Ákveðið var að lagfæra tölvukerfi skipsins um leið og gera þurfti nauðsynlegar viðgerðir. Verið er að skipta út uggum skipsins og skipta um fóðringar.