Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þórhildur Sunna sögð hafa brotið siðareglur

17.05.2019 - 06:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, er sögð hafa brotið gegn siðareglum þingmanna vegna ummæla sem hún lét falla í sjónvarpsþættinum Silfrinu um greiðslur til Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta er niðurstaða siðanefndar Alþingis sem hefur sent forsætisnefnd Alþingis ráðgefandi álit þess efnis. Þórhildur Sunna ætlar að krefjast þess að forsætisnefnd þingsins vísi málinu aftur til siðanefndarinnar.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.  Siðanefndin telur ekki að flokksbróðir Þórhildar, Björn Leví Gunnarsson, hafi brotið gegn siðareglunum en Ásmundur kvartaði undan ummælum þeirra beggja í byrjun árs.  Taldi hann að þingmennirnir hefðu haft í frammi grófar aðdróttanir og fullyrðingar um refsiverða háttsemi hans. Þórhildur Sunna sagði í Silfrinu í febrúar á síðasta ári að uppi væri „rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hefði dregið sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“

Samkvæmt Fréttablaðinu telur siðanefndin að órökstuddar aðdróttanir af hálfu þingmanna um refsiverða háttsemi annarra þingmanna sé til þess fallið að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess. Slíkt hafi óneitanlega neikvæð áhrif á traust almennings til Alþingis.  

Þórhildur Sunna segist í samtali við Fréttablaðið vera ósátt við niðurstöðu siðanefndarinnar því hún hafi ekki kannað sannleiksgildi orða sinna. Hún muni fara fram á það við forsætisnefnd að hún vísi málinu aftur til siðanefndar til frekar meðferðar þegar hún hefur skilað inn greinargerð. 

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu Þórhildi fyrir þessi ummæli á Alþingi í febrúar á síðasta ári og sögðu hana hafa vænt Ásmund um refsiverðan verknað án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því. „Nú er það svo að rökstuddur grunur hefur ákveðna merkingu í sakamálaréttarfari og ég verð að segja að ummæli hæstvirts þingmanns á opinberum vettvangi í gær fóru að mínu mati gjörsamlega út fyrir öll mörk í þessu samhengi,“ sagði Birgir Ármansson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Þórhildur svaraði því til að hún hefði engan sakað um lögbrot heldur eingöngu sagt að það væri rökstuddur grunur til að hefja rannsókn á því hvort brot hefði átt sér stað.  Þótt rökstuddur grunur væri í vissum tilfellum lögfræðifræðilegt hugtak tilheyrði það ekki lögfræðinni. „Ég er bara að tala sem venjuleg manneskja sem talar við venjulegt fólk án þess að ætla að ræna skynsömu orðafari.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV