Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þórhildur hlýtur heiðursverðlaun

Mynd: RÚV / RÚV

Þórhildur hlýtur heiðursverðlaun

12.06.2019 - 21:20

Höfundar

Þórhildur Þorleifsdóttir hlaut heiðursverðlaun Grímunnar á verðlaunaafhendingunni sem fram fór í kvöld. Hún var heiðruð fyrir áratuga framlag sitt til sviðslista á Íslandi. „Áfram stelpur,“ sagði Þórhildur í þakkarræðu sinni.

Þórhildur Þorleifsdóttir hefur ýmsa fjöruna sopið á ferli sínum en hún starfaði meðal annars sem leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur á árunum 1996 til ársins 2000. Hún útskrifaðist sem listdanskennari aðeins 19 ára og miðlaði um árabil til yngri kynslóða með því að kenna dans og leiklist. Þórhildur hefur ásamt framlagi sínu til sviðslista verið virk í pólitík í gegnum tíðina en hún ein af stofnendum Kvennaframboðsins og var varaborgarfulltrúi fyrir framboðið á tímabilinu 1982-1990. Hún leiddi einnig lista Lýðræðisvaktarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður í alþingiskosningunum 2013.

Eiginmaður Þórhildar er leikarinn Arnar Jónsson en þrjú af börnum þeirra hafa einnig verið virk í leikhúslífinu í gegnum árin, þau Sólveig Arnardóttir leikkona, Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og Jón Magnús Arnarsson leikskáld. Hún segir öll börn sín hafa stutt sig á ferli sínum, og í hvert sinn sem gustað hafi um hana hafi þau slegið um móður sína skjaldborg.

Hún hefur leikstýrt í öllum stóru leikhúsunum á landinu og fyrir flestalla miðla, leikhúsfjalirnar, sjónvarp, kvikmyndahús og einnig útvarpsleikhúsið. Þessi kjarnakona hefur alla tíð verið baráttu- og félagskona og látið til sín taka í baráttu fyrir bættum kjörum sviðslistafólks, en hún gengdi einnig formennsku í félagi leikstjóra um árabil.

Í leikhúsinu hefur Þórhildur leikið í og leikstýrt fjölmörgum leiksýningum og óperum. Það má segja að Þórhildur, sem hefur verið afar virk í kvenréttindabaráttu á Íslandi, hafi rutt brautina fyrir konur í leikstjórn og leiklist. Hún hefur ásamt framlagi sínu til sviðslista meðal annars leikstýrt kvikmyndinni Stellu í orlofi sem er fyrir löngu orðin klassík í íslenskri kvikmyndagerð. Það var Dagur B. Eggertsson sem færði Þórhildi heiðursverðlaunin í ár.

Hægt er að sjá alla þakkarræðu Þórhildar í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Gríman afhent í kvöld

Leiklist

Ríkharður III með flestar Grímutilnefningar