Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórdís Kolbrún leggur niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
 Mynd: Fréttir
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, hefur ákveðið að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) niður um næstu áramót. Starfsmenn eru 81 talsins.

Ráðherra kynnti þessi áform sín á ríkisstjórnarfundi í morgun. Ætlunin er að færa verkefni NMÍ undir annað rekstrarform. Segir í tilkynningu að hluti þeirra verkefna sem NMÍ sinnir geti vel verið framkvæmdur af aðilum á markaði.

Þá sé hluti verkefna NMÍ ekki forgangsverkefni hins opinbera í nýsköpun og þeim verkefnum verður hætt.

Flestir fá uppsagnarbréf um áramót

Starfsmenn NMÍ eru 81 og starfa í 73 stöðugildum, þar af fimm á landsbyggðinni. Áform eru um að stofnunin verði lögð niður um áramót og verður þá staðið við allar skuldbindingar gagnvart starfsfólki.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fær hluti starfsmanna NMÍ afhend uppsagnarbréf um áramót og verða á launum út uppsagnarfrest sinn.

Bein framlög úr ríkissjóði til NMÍ eru nú rúmlega 700 milljónir króna árlega, að undanskildum kostnaði við húsnæði NMÍ í Keldnaholti, sem fært verður til ríkiseigna. Ráðgert er að tæplega helmingur þess fjármagns verði notaður til að fylgja eftir þeim verkefnum stofnunarinnar sem framhald verður á. 

Sigríður Ingvarsdóttir, forstjóri NMÍ, mun leiða vinnuna innan NMÍ og njóta stuðnings stýrihóps ráðuneytisins. Starfshópar verða skipaðir á næstu dögum til að styðja við verkefnið með aðkomu hagaðila. Starfsfólk NMÍ hefur verið upplýst um stöðuna.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands var sett á fót árið 2007 með sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.