
Fréttaskýringaþátturinn hefur enn ekki hlotið nafn en undirbúningur fyrir hann er þegar hafinn. Stefnt er að því að þættirnir verði á dagskrá á þriðjudagskvöldum og í þeim verði innlendar og erlendar fréttaskýringar, rannsóknarblaðamennska og nærmyndir svo eitthvað sé nefnt.
Auglýst hefur verið eftir dagskrárframleiðanda og vefritstjóra þáttarins og rennur umsóknarfrestur út á mánudag.
„Þátturinn mun byggja á rannsóknarblaðamennsku, fréttaskýringum og dýpri úttektum,“ segir Þóra.
„Því hefur verið sinnt eins og kostur er í Kastljósi, en með nýjum, vikulegum fréttaskýringaþætti verður til svigrúm til að vinna umfjöllun sem krefst mikillar rannsóknar og tíma. Útkoman verður vonandi þáttur sem skiptir þjóðina máli, veitir aðhald, upplýsir, fræðir og skemmtir, eins og er skýrt hlutverk RÚV.“
Þóra segir hópinn hlakka til að takast á við verkefnið: „Við sem að honum komum erum full tilhlökkunar að takast á við verkefnið, enda er það okkar skoðun að mikil þörf sé fyrir þátt af þessu tagi í íslensku sjónvarpi.“
Við þetta breytast áherslur Kastljóss. Þátturinn verður viðtalsþáttur í beinni útsendingu þar sem boðið verður upp á fréttatengda umræðu en mennining verður áfram á sínum stað. Nýtt Kastljós hefst 14. ágúst.