Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Thomas Olsen segist saklaus af morðinu á Birnu

Héraðsdómur Reykjavíkur 2. mars 2017
 Mynd: RÚV
Thomas Møller Olsen, þrítugur Grænlendingur sem setið hefur í gæsluvarðhaldi vegna máls Birnu Brjánsdóttur síðan um miðjan janúar, neitaði því við þingfestingu málsins rétt í þessu að hafa myrt Birnu. Hann neitaði því jafnframt að hafa flutt til landsins 23,4 kíló af hassi.

Saksóknarinn Kolbrún Benediktsdóttir lagði fram bunka af málsgögnum, meðal annars geðheilbrigðisrannsókn yfir Olsen. Efni hennar kom ekki fram.

Verjandi Olsens fór fram á frest til að meta hvort hann mundi skila greinargerð í málinu. Hann yrði að kynna sér gögn frekar til þess. Fresturinn var ákveðinn tvær vikur.

Olsen faldi andlit sitt undir teppi þegar lögreglumenn leiddu hann á milli sín inn í dómsalinn eins og hann hefur gert fram til þessa og tók það ekki af sér fyrr en dómarinn Kristinn Halldórsson gekk inn í salinn.

Túlkur var viðstaddur þingfestinguna og túlkaði það sem fram fór fyrir Olsen á dönsku.

Ákæra héraðssaksóknara var gefin út fyrir ellefu dögum og birt Olsen viku síðar. Fjölmiðlar fengu hana síðan í hendurnar í gær. 

Í ákærunni er Olsen sagður hafa veist að Birnu í rauða Kia Rio-bílnum við flotkví sem er í Hafnarfjarðarhöfn eða á öðrum óþekktum stað. Hann er sagður hafa slegið hana ítrekað í andlit og höfuð, tekið hana kverkataki og hert kröftuglega að hálsi hennar. Hann er síðan sagður hafa varpað henni í sjó eða vatn með þeim afleiðingum að hún drukknaði. 

Olsen var einnig ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en fram hefur komið í fjölmiðlum að hann hann hafi við yfirheyrslur hjá lögreglu játað að hafa ætlað að smygla 23,4 kílóum af kannabisefnum frá Danmörku til Grænlands. Hann neitaði sök fyrir dómi í dag. Fíkniefnin fundust við leit í grænlenska togaranum Polar Nanoq þegar skipinu var snúið aftur til Hafnarfjarðar í tengslum við rannsókn lögreglu á máli Birnu. 

Olsen hefur verið vistaður í fangelsinu á Hólmsheiði síðan hann var látinn laus úr sex vikna einangrun á Litla Hrauni. Hinn skipverjinn, sem sat tvær vikur í gæsluvarðhaldi vegna málsins, hefur ekki lengur stöðu sakbornings. Hann er kominn aftur til vinnu en mun gefa skýrslu á Íslandi ef þess verður óskað.