Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þolandi árásarinnar útskrifaður af gjörgæslu

04.03.2020 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fórnarlamb hnífstunguárásarinnar á Kópaskeri aðfaranótt laugardags hefur verið útskrifaður af gjörgæslu sjúkrahússins á Akureyri. Lögreglan hefur enn ekki rætt við manninn en vonir standa til þess að hægt verði að taka af honum skýrslu seinna í dag. Grunaður árásarmaður liggur enn meðvitundarlaus á gjörgæslu.

Fluttur á Húsavík

Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í samtali við fréttastofu að þolandinn hafi verið fluttur á sjúkrahúsið á Húsavík seint  í gær. Þá staðfestir hann að grunaður árásarmaður sé enn á gjörgæslu.

„Þolandinn var fluttur af gjörgæslu seint í gærdag og lögregluvarðgæslu á gjörgæslu aflétt í kjölfarið. Ástand meints geranda er óbreytt að mér skilst,“  segir Bergur. 

„Tel að læknavísindin geti svarað því“

Ástæður þess að grunaður árásarmaður var fluttur á gjörgæslu liggja ekki fyrir. Bergur sagðist í skriflegu svari til fréttastofu í gær ekki vita hvað varð til þess að maðurinn var fluttur á gjörgæslu. „Tel að læknavísindin geti svarað því betur. Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur þó verið gert viðvart um atvikið eins og reglur kveða á um“ sagði  Bergur.