Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þök fuku af gróðurhúsum: „Það var brjálað veður“

14.02.2020 - 16:59
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Þök fuku af gróðurhúsum á Flúðum í Hrunamannahreppi fyrr í dag og rúður eru enn að brotna í hviðum, segir Reynir Jónsson, garðyrkjubóndi í Reykási. Hann gisti í gróðurhúsinu í nótt og segist aldrei hafa upplifað annað eins. Tjónið hlaupi líklega á tugum milljóna króna.

Í Reykási eru fjögur samliggjandi gróðurhús þar sem ræktaðar eru gúrkur, tómatar og salat. Síðdegis gekk enn á með sterkum vindhviðum og ekkert vinnuveður úti við. Reynir segir að megnið af þaki allra gróðurhúsanna hafi fokið, gler brotnað og stór hluti af einni hlið. 

„Nei ég hef aldrei séð svona. Það var eiginlega bara brjálað veður,“ segir Reynir. „Ég hugsa  að glerbrotin úr húsinu hafi farið svona alveg 500 metra í burtu. Ég var í húsinu í nótt og fór aldrei út, bara hélt mér til hlés inni í öryggisherbergi og fór ekkert út eða úr því herbergi því það var svo brjálað og maður þakkkaði bara fyrir að þakið á þeirri stálgrind þoldi þetta veður.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Geir Eyjólfsson - RÚV

Reynir býr ekki við gróðurhúsin og engin íbúðarhús nærri eða skepnur. Hann segist þurfa að fá sérfræðinga til landsins frá Hollandi til að laga gróðurhúsin. Hann býst við að það eigi eftir að taka tvo til fjóra mánuði að koma þeim aftur í rekstur. 

„Það fer bara eftir því hvað okkur gengur vel að glerja þetta og fá hita upp í húsið, það er ekki nema fjórar gráður í því núna,“ segir Reynir. Venjulega sé þar um 20 stiga hiti og plönturnar þoli ekki kuldann til lengri tíma.

„Eitt [gróðurhúsið] er svo til alveg ónýtt og svo eru miklar skemmdir á hinum þremur. Þannig að við náum ekki að halda hita eða neinu. Þannig að við erum bara að skjóta niður núna, þrífa og byrja upp á nýtt.“ Uppskeran sé eiginlega öll ónýt

Hann segir erfitt að meta hversu mikið tjónið er. „Ég myndi skjóta á svona 30 til 50 milljónir bara svona algjörlega út í loftið. Jafnvel meira, þetta er bara svo erfitt að segja eins og staðan er og veðrið er svo vont og það er enn að brotna. Tíminn vinnur náttúrlega ekki með okkur þannig með svona mikið rok.“

Reynir segir allt gler sé brotið en sprossarnir að mestu heilir. „Þetta er bara slæmt. Enda var veðrið náttúrlega á þessum stað, ég veit ekki hvernig það var í kringum mig, það var gjörsamlega vitlaust.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV