Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þögn, niður og gnauð(i) frá bestu hljómsveit í heimi

Mynd með færslu
 Mynd: HAM - Facebook

Þögn, niður og gnauð(i) frá bestu hljómsveit í heimi

24.01.2020 - 10:57

Höfundar

Chromo Sapiens er ný plata með bestu hljómsveit í heimi, HAM. Hún er tilkomin vegna sýningar Hrafnhildar Arnardóttur, Shoplifter, á Feneyjatvíæringnum og jafnframt djarft verk og vel þegin viðbót við höfundarverk HAM.

Dálæti mitt á HAM má sjá strax í inngangstexta þessa dóms og er ég síst einn landsmanna um þessa dýrkun. Þessi hljómsveit, sem stofnuð var fyrir 32 árum, nýtur einstakrar lýðhylli hér á landi og höfðar bæði til ólíkra kynslóða auk þess sem hún nær bæði til pælara og „venjulegra“ manna. Það þarf alltaf að útskýra sérstaklega fyrir útlendingum þessa hrifningu landans á HAM, og eru þeir jafn utangátta eftir samtalið og þeir voru þegar þeir báru upp spurninguna.

Þrátt fyrir hliðstæðulausan hljóm og stíl hefur HAM gert alls konar tónlist á löngum ferli. Grófa, markateygjandi neðanjarðartónlist, grípandi þungarokk, sprelligosalegt flipp og hina ótrúlegustu epík. Á Chromo Sapiens gafst þeim hins vegar færi á að fara dálítið í ræturnar, þegar sveitin var undir djúpum áhrifum frá hávaðalistamönnum og listrænt þenkjandi jaðarsveitum eins og Swans (platan auk þess tekin upp í hljóðveri andans systkina, nefnilega Sonic Youth, í Echo Canyon West hljóðverinu í Hoboken í New Jersey). Platan er tilkomin vegna sýningar Hrafnhildar Arnardóttur, Shoplifter, sem var á Feneyjatvíæringnum. Sú sýning samanstendur af þremur gríðarstórum hellum úr litríku gervihári sem umlykja áhorfendur. Úr hárinu berast svo drungalegir hljómar og sveimandi óhljóð HAM.

Mynd: RÚV / RÚV
Menningin heimsótti litríka hárhella Hrafnhildar Arnardóttur í Feneyjum á síðasta ári.

Platan var tekin upp í samstarfi við Skúla Sverrisson, sem er vel kunnugur neðanjarðarsenunni á austurströnd Bandaríkjanna. Hann stýrði upptökum og lék á bassa á þeim hluta plötunnar sem unnin er úr undirleikstónlist sýningarinnar. Ég var spenntur þegar ég setti plötuna af stað. Hvernig ætluðu þeir að leysa málið? „Primal Opus“ hefur leik, lágstemmt drunuverk mætti kalla, naumhyggjulegt og sveimkennt. Tíu mínútur. Nei, þú ert ekki að fara að syngja með í þessu lagi á næstu tónleikum HAM! Óttarr er frábær í þessu lagi, rödd hans minnir annars vegar á túvískan barkasöng og Attila Csihar úr Mayhem. Lagið skríður afar rólega áfram og spenna er byggð upp hægt og bítandi. Trommur Arnars Geirs koma ógnandi inn með reglulegu millibili og undir surga gítarar og bassar. Spennunni er haldið út í gegn, hún losnar aldrei.

„Astral Gloria“ er næst, og um margt svipuð smíð. En nú er það hertoginn, Sigurjón Kjartansson, sem syngur. Lúmsk kímnigáfa HAM leikur hér lausum hala, söngur Sigurjóns er merkilegur, sönglar eins og það sé verið að flytja vögguvísu úr helvíti. „Chromo Sapiens Anthem“ skilgreinir sig í titlinum, stóreflis dramasmíð sem HAM-liðar eru völundar í. „Haf trú“ er óvenjulegra, seigfljótandi en níðþung smíð, sem gefur sig ekki, stekkur ekki á þig, frekar en annað hér. Taktföstum ganginum er haldið nokkurn veginn út lagið. Það er eins og platan öll sé dálítið að stríða okkur, er rígbundin í spennu sem er aldrei losuð og þar liggja mögnuð áhrif hennar. Þetta stikar henni á vissan hátt utan við hefðbundnar plötur HAM, forsendur myndlistarverksins gera það að verkum að þetta gat aldrei orðið „eðlileg“ HAM plata en um leið nálgast sveitin sitt skapalón á nýjan og nokk frumlegan hátt. „Opium Natura“ lokar plötunni, engilblíð systir „Astral Gloria“ og hér heyrir maður hvað best í framlagi Skúla.

Chromo Sapiens er djarft verk og vel þegin viðbót í höfundarverk HAM. Og að vanda er það morgunljóst: Ham er besta hljómsveit í heimi.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Dramatískt og einlægt