Dálæti mitt á HAM má sjá strax í inngangstexta þessa dóms og er ég síst einn landsmanna um þessa dýrkun. Þessi hljómsveit, sem stofnuð var fyrir 32 árum, nýtur einstakrar lýðhylli hér á landi og höfðar bæði til ólíkra kynslóða auk þess sem hún nær bæði til pælara og „venjulegra“ manna. Það þarf alltaf að útskýra sérstaklega fyrir útlendingum þessa hrifningu landans á HAM, og eru þeir jafn utangátta eftir samtalið og þeir voru þegar þeir báru upp spurninguna.
Þrátt fyrir hliðstæðulausan hljóm og stíl hefur HAM gert alls konar tónlist á löngum ferli. Grófa, markateygjandi neðanjarðartónlist, grípandi þungarokk, sprelligosalegt flipp og hina ótrúlegustu epík. Á Chromo Sapiens gafst þeim hins vegar færi á að fara dálítið í ræturnar, þegar sveitin var undir djúpum áhrifum frá hávaðalistamönnum og listrænt þenkjandi jaðarsveitum eins og Swans (platan auk þess tekin upp í hljóðveri andans systkina, nefnilega Sonic Youth, í Echo Canyon West hljóðverinu í Hoboken í New Jersey). Platan er tilkomin vegna sýningar Hrafnhildar Arnardóttur, Shoplifter, sem var á Feneyjatvíæringnum. Sú sýning samanstendur af þremur gríðarstórum hellum úr litríku gervihári sem umlykja áhorfendur. Úr hárinu berast svo drungalegir hljómar og sveimandi óhljóð HAM.