Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þögn getur verið grimm en líka ljúf og skapandi

Mynd: Davíð K.G. / RÚV

Þögn getur verið grimm en líka ljúf og skapandi

11.03.2020 - 00:01

Höfundar

Stundum getur þögnin verið óþægileg, jafnvel grimm og sár. En stundum er hún líka ljúf og góð og hún getur jafnvel verið skapandi, það getur svo margt leitað fram í þögninni. Anna Ingólfsdóttir er fyrrverandi leikskólakennari og húsmóðir á Akureyri sem hefur sent frá bók sem hún gefur þann mótsagnakennda titil Þögn og er safn ljóða og styttri sagna.

Bókarkverið Þögn eftir Önnu Ingólfsdóttur inniheldur fjórtán stuttar sögur og 15 ljóð. Oftast tengjist eitt ljóð hverri sögu en stöku sögu fylgja líka tvö ljóð. Í viðtalinu segir Anna að aðeins síðasa „parið“ í bókinni hafi orðið til sem slíkt, þ.e smásagan „Að vega og mæla“ og ljóðið „Þögn“

Þögn

Þögnin er eins og teningur. 
Þegar við köstum veit enginn
hvaða hlið kemur upp
þegar hún fellur.

Þögnin er eins og þríhyrningur.
Hvöss horning stinga,
reiði, kvíði, sorg.

Þögnin er eins og hringur
hringur á hendi ástvinar.
Umlykur mig blítt að kvöldi.
Svífur eins og dalalæða
inn fjörðinn í rökkrinu.
Við leggjumst á koddann, ég og þögnin
og sofnum báðar.

„Þegar ég var unglingur kom þessi þörf og ég fann ég fyrir þessari gleði þegar maður getur tjáð sig í ljóði eða prósa,“ segir Anna Ingólfsdóttir. „Eftir því sem fram leið komu hins vegar önnur verkefni, börn og heimili, en ég las alltaf mikið, ekki síst ljóð.“

Uppgötvun hins óbundna ljóðs varð Önnu opinberun og er Steinn Steinar í miklu uppáhaldi. Síðar gerðist Anna Ingólfsdóttir leikskólakennari og fékk ákveðna útrás fyrir sagnasköpun sína í því að segja börnunum sögur sem hún samdi jafnharðan. Fyrir nokkrum árum fór hún svo á námskeið í skapandi skrifum og þá opnaðist greinlega æðin aftur.

Eins og áður sagði tengjast sögur og ljóð bókarinnar í pörum. Efnið varð þó ekki til með þessum hætti nema í einstaka tilvikum. Þegar Anna síðan fór að raða efninu sem hún var með í höndunum niður fyrir bók hafi henni fundist hún ekki vera með nægilega margar sögur til að fylla smásagnakver, eins og hún orðar það. „en mig langaði til að ljóðin mín birtust líka svo ég ákvað að láta vaða.“ Og Anna ákvað þá líka að gefa bókina út sjálf, „og gera þetta bara svolítið sérkennilegt.“

Efni bókarinnar spannar lauslega mannsævina, fyrsta sagan segir frá lítilli stúlku á sveitabæ sem á vinkonu á næsta bæ. Skyndilega ákveður vinkonan að snúa sér að annarri stelpu og hætta að vera vinkona stúlkunnar. Vonbrigðin voru sár og fylgdu stúlkunni allt lífið. Margar sagnanna fjalla um áföll af ýmsum toga og hvernig þau fylgja manneskjunni í gegnum lífið og móta hana verða leiðarljós skilnings. Í sögunni „Á veginum“ ekur fullorðinn maður Volvo sínum eftir þjóðveginum, finnur kraftinn og verður hugsað til frelsistilfinningar unglingsáranna á „nöddunni“ úti á þjóðvegi. Í þessari sögu er rauði þráðurinn frelsi og ábyrgð eins og í ljóðinu sem fylgir sögunni.

Góðar saman

Í fjarlægri borg
stendur stytta frelsisins
gnæfir yfir götur og torg
vegsamar frelsi mannsins.
Frelsi til orða
frelsi til að koma og fara
frelsi til athafna.
Gott væri að sjá systur hennar
styttu ábyrgðarinnar
standa hjá henni á torginu.
Þá gætum við fagnað og hrópað
þið eruð góðar saman.