Áfallið sem síldahvarfið hafði í för með sér var svo mikið að það kom kreppa í allt landið en Siglufjörður varð sérstaklega illa úti og var lengi að jafna sig. Bæjarbúum fór að fækka ört, sumir fluttu, tímabundið fyrst, en komu svo ekki aftur.
Það yfirgaf hús sem voru jafnvel nýsmíðuð og fór suður yfir heiðar, til Reykjavíkur, Vestmannaeyja og Suðurnesja. Þar urðu brottfluttir Siglfirðingar fjölmennir enda nóga atvinnu að fá í kringum herinn. „Þegar maður var að koma heim úr skóla til pabba og mömmu og spyrja almennra frétta, þá var bara: „Hann flutti þessi, nú eru þau að fara í vor,“ og svo framvegis,“ segir Gunnar Rafn Sigurbjörnsson fyrrverandi skólastjóri og bæjarstjórnarmaður á Siglufirði. „Þó maður væri bara unglingur þá fann maður þetta. Þar sem höfðu búið þrjár fjölskyldur í húsi var allt í einu bara ein fjölskylda.“
Íbúðarhúsnæði varð verðlítið og hús stóðu auð. Þessu fylgdi ákveðin beiskja, menn spurðu sig hversu mikið af síldargróðanum hefði orðið eftir á Siglufirði. Jú, það hafði byggst up bær en grósserar og spekúlantar fór burt af bökkum og plönum, en skildu Siglfirðinga eftir með ruslið. Þetta var eins og yfirgefinn gullgrafarastaður.
Lokaþáttur Siglufjarðar – sögu af bæ verður á dagskrá RÚV sunnudagskvöld klukkan 20:05. Hægt er að horfa á eldri þætti í spilara RÚV.