Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þjófur í farbanni hélt áfram að læðast í hús

03.09.2018 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erlendir feðgar eru grunaðir um að hafa farið inn í ólæst hús víða um land og hirt bæði skartgripi og peninga. Sonurinn hefur verið ákærður fyrir fjögur húsbrot á Suðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi og er grunaður um að hafa haldið brotum áfram eftir að honum var sleppt úr haldi og hann settur í farbann. Hann var tekinn með þýfi úr tveimur húsum til viðbótar á fimmtudag og er kominn í gæsluvarðhald.

Lögreglan á Austurlandi hafði hendur í hári erlendra feðga í Breiðdal í júní en þá hafði sonurinn farið inn í hús á Fáskrúðsfirði og kýlt húsráðanda í magann þegar hann kom að honum. Feðgarnir reyndu að komast undan á bíl og enduðu utan vegar í Breiðdal þar sem lögregla setti upp farartálma. Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og síðar í farbann. Grunur lék á að þeir hefðu farið inn í ólæst hús víða um land.

Ákæra á hendur syninum fyrir húsbrot, þjófnað, tilraun til þjófnaðar, líkamsárás og umferðarlagabrot var þingfest í héraðsdómi Suðurlands í morgun. Þar er honum gefið að sök að hafa 18. júní farið inn í ólæst hús á Eyrarbakka og stolið 85 þúsund krónum úr veski húsráðanda, 300 evrum úr pyngju og 40 þúsund krónum úr boxi í eigu foreldrafélags grunnskóla staðarins, og einnig myndavél. Fjórum dögum síðar á hann hafa farið inn í ólæst hús í Þorlákshöfn og stolið skartgripum úr læstu skartgripaskríni í svefnherbergi og íslenskum krónum og evrum úr veski sem lá á bekk, ekki er vitað hve miklu. Daginn eftir var það ólæst hús á Hellissandi. Þaðan hurfu fjögur gullúr, gullarmband, barmnæla og sex þúsund krónur úr barnaveski. Þremur dögum síðar var hann svo kominn austur á land og reyndi við húsið á Fáskrúðsfirði þar sem hann endaði eins og áður segir, utan vegar í klóm lögreglunnar ásamt föður sínum.

Eftir að feðgarnir voru látnir lausir úr gæsluvarðhaldi virðist sonurinn hafa haldið uppteknum hætti. Lögreglan á Vesturlandi handtók hann á fimmtudag, skömmu eftir tvö húsbrot á Snæfellsnesi. Hann var þá með þýfi sem saknað var úr húsi á Hellissandi og öðru í Grundarfirði. Á föstudag var hann úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Fólk á landsbyggðinni er orðið vart um sig vegna frétta af erlendum þjófagengjum sem fara um landið og stela úr ólæstum húsum. Mörg sambærileg mál eru enn óupplýst víða um land og lögreglan hefur brýnt fyrir fólki að læsa húsum sínum og láta vita af grunsamlegum mannaferðum.