Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þjóðvegi 1 lokað frá Eyjafjöllum að Vík vegna veðurs

19.02.2020 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Veginum undir Eyjafjöllum að Vík hefur verið lokað vegna veðurs. Á vef Vegagerðarinnar segir að ekki sé útilokað að vegum verði lokað lengra til austurs, allt að Jökulsárlóni. Þæfingur og skafrenningur er á Lyngdalsheiði.

Appelsínugular veðurviðvaranir verða í gildi á Suðurlandi og á Suðausturlandi fram á kvöld. Spáð er norðaustan stormi eða roki með snjókomu á Suðurlandi. Vindhviður geta orðið yfir 40 metrar á sekúndu undir Eyjafjöllum. Það verður slydda, snjókoma með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður.

Á Suðausturlandi varar Veðurstofan við því að akstursskilyrði geti orðið slæm og mögulega spillst, til dæmis á Reynisfjalli. Spáð er norðaustan 18 til 28 metrum á sekúndu með talsverðri snjókomu eða slyddu, hvassast í Mýrdal og við Öræfajökul þar sem vindhviður geta staðbundið farið yfir 40 metra á sekúndu og því ekkert ferðaveður.

Hvasst og snjókoma verður á heiðum um norðanvert landið í kvöld, einkum á Austfjörðum. Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir meirihluta landsins frá því síðdegis í dag og sums staðar fram á morgun.