Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þjóðleikhúsráð segir af sér

07.06.2019 - 19:44
Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Allir fulltrúar í þjóðleikhúsráði hafa sagt af sér. Er það gert svo umsóknarferlið um starf þjóðleikhússtjóra sé hafið yfir allan vafa um mögulegt vanhæfi einstakra fulltrúa í ráðinu. Staða þjóðleikhússtjóra er nú laus til umsóknar en Ari Matthíasson gegnir starfinu nú.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þar er fráfarandi þjóðleikhúsráði þakkað fyrir vel unnin störf.

Nýtt þjóðleikhúsráð mun starfa frá 1. júlí en það mun meta hæfi umsækjenda og starfa með þjóðleikhússtjóra til næstu fjögurra ára.

Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins skipað af mennta- og menningarmálaráðherra, í því sitja fimm fulltrúar, frá Félagi íslenskra leikara, Félagi leikstjóra á Íslandi og þrír án tilnefningar. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna.