Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þjóðhátíð sett í Eyjum

Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir / Aðsend mynd
Þjóðhátíð var sett í Vestmannaeyjum í dag. Bjartmar Guðlaugsson frumflytur þjóðhátíðarlag sitt í kvöld. Fjöldi tónlistarmanna stígur á stokk ásamt Bjartmari, svo sem GDRN, Stjórnin, Flóni og Herra Hnetusmjör. Fjöldi fólks er í Eyjum og góð stemning á svæðinu.

Almennt hægir vindar á landinu yfir helgina

Það má búast við því að það verði þungbúið í Eyjum yfir helgina, en litlar líkur á rigningu, segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hiti verði á bilinu 8 til 13 stig. 

Daníel segir að almennt verði hægir vindar á landinu um helgina, bjart inn til landsins og léttskýjað, en þyngra yfir ströndinni. Hiti á bilinu 10 til 18 stig, hlýjast inn til landsins, einkum á Vesturlandi. 

Búast við mikilli umferð um helgina

Nýi og gamli Herjólfur sigla samtals níu ferðir til Eyja í dag. „Það er mikið að gera að koma fólki fram og til baka um helgina. Starfsfólk Herjólfs er allt með uppbrettar ermar og tilbúið að þjónusta þá flutninga sem eiga sér stað yfir helgina,“ sagði Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, í samtali við fréttastofu. 

Á Facebook-síðu Samgöngustofu segir að fólk á leið frá frá höfuðborgarsvæðinu til Landeyjahafnar megi búast við tveggja klukkustunda akstri, ef aðstæður eru góðar. Búast megi við mikilli umferð um helgina. Farþegum með Herjólfi er bent á að mæta tveimur tímum fyrir brottför. Mikið álag sé í Landeyjahöfn.