Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þjóðfylkingin dregur alla lista sína til baka

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenska þjóðfylkingin hefur tilkynnt yfirkjörstjórnum að hún hafi dregið alla framboðslista sína til komandi þingkosninga til baka. Kjörstjórnirnar gerðu athugasemdir við meðmælendalista allra fjögurra framboðslista flokksins eftir að í ljós kom í stikkprufum að margir könnuðust ekki við að hafa mælt með framboðinu. Stór hluti undirskriftanna virtist vera með sömu rithönd.

Þetta staðfesta yfirkjörstjórnarmenn í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi, þar sem Íslenska þjóðfylkingin skilaði inn framboðslistum í gær.

Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir að umboðsmaður framboðslistans hefði fengið athugasemdir í gær eftir úthringingar í fólk á meðmælendalista flokksins. Svo hafi virst sem margar undirskriftanna hafi verið með sömu rithönd og í ljós hafi komið að margir þeirra sem á listanum voru hafi ekki kannast við að hafa léð flokknum meðmæli sín.

Kjörstjórnarinnar hafi svo beðið tilkynning um það frá flokknum í morgun að listinn yrði dreginn til baka. Fundað verður með umboðsmanni flokksins eftir hádegi og segir Erla að þá verði sennilega gengið frá málinu með formlegum hætti.

Heimir Örn Herbertsson, sem situr í kjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis suður, hefur sömu sögu að segja og Erla. Hann segir að meirihluti þeirra sem haft var samband við af meðmælendalistanum í gær hafi ekki kannast við undirskrift sína.

Ástríður Grímsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis, segir að það sama sé uppi á teningnum þar. Hún segir að úrskurðað verði endanlega um málið á fundi kjörstjórnarinnar með umboðsmönnum flokkanna klukkan tólf.

Ólafía Ingólfsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, segir að þar á bæ hafi atburðarásin verið sú sama. Kjörstjórnin hafi gert alvarlegar athugasemdir, bæði við meðmælendalistann og framboðslistann sjálfan, sem hafi leitt til þess að framboðið var dregið til baka í gærkvöld. Ólafía vill ekki tjá sig um að hverju athugasemdirnar við framboðslistann lutu.

Fjórmenningarnir segja að ekki hafi verið gerðar athugasemdir sem máli skipti við aðra lista – ýmist engar eða þá að þær hafi verið smávægilegar og að bætt hafi verið úr þeim málum.

Uppfært kl. 11.32:
Í fyrri útgáfu fréttarinnar var ekki fjallað um framboðslista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Flokkurinn skilaði listanum þar örfáum mínútum áður en framboðsfrestur rann út um hádegisbil í gær og hafði ekki enn gert það þegar fréttastofa aflaði sér upplýsinga um framboð í kjördæminu í gær.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV