Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þjóðaröryggisráð fundar sérstaklega í fyrsta sinn

12.12.2019 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Forsætisráðherra hefur boðað þjóðaröryggisráð til fundar klukkan fimm síðdegis í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem þjóðaröryggisráð er kallað sérstaklega saman vegna aðstæðna sem upp eru komnar í samfélaginu. Aðrir fundir ráðsins hafa verið reglubundnir. Samkvæmt lögum ber forsætisráðherra að boða til fundar ráðsins ef atburðir hafa orðið eða eru yfirvofandi sem geta haft áhrif á þjóðaröryggi.

„Ég hef ákveðið að boða til fundar þjóðaröryggisráðs til að fara yfir stöðuna þannig að allir ráðsmeðlimir hafi yfirsýn yfir hana,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í hádegisfréttum RÚV.

Þjóðaröryggisráð stofnað 2016

Í þjóðaröryggisráði eiga fast sæti forsætisráðherra sem jafnframt er formaður ráðsins, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja. Auk þeirra eiga sæti í ráðinu tveir þingmenn, annar úr meirihluta og hinn úr minnihluta. Einnig sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóri og fulltrúi Landsbjargar. 

Þjóðaröryggisráð var stofnað árið 2016 eftir að lög þess efnis voru sett á Alþingi. Fyrsti fundur ráðsins var i maí 2017 og hefur ráðið komið saman samanlagt átta sinnum frá upphafi en því ber samkvæmt lögum að halda reglulega fundi.

Auk hinna reglulegu funda ber þjóðaröryggisráði að funda sérstaklega vegna atburða, ýmist yfirvofandi eða sem hafa orðið, sem haft geta áhrif á þjóðaröryggi.

Hlutverk ráðsins við slíkar aðstæður er að hafa yfirsýn yfir hvers konar neyðarástand og tryggja að nauðsynlegum ráðstöfunum sé fylgt eftir. Meðal þess sem þjóðaröryggisráði ber að gæta sérstaklega er öryggi borgaranna og grunnvirkja samfélagsins. 

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er þetta í fyrsta sinn sem tilefni hefur þótt til að kalla þjóðaröryggisráðið sérstaklega saman