Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þjóðaröryggisráð fundar á öruggum stað

12.06.2017 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Þjóðaröryggisráð ætlar að funda á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í dag. Dagskrá fundarins er sögð kalla á að fundarstaðurinn uppfylli nauðsynlegar öryggiskröfur.

Lögregla hefur á grundvelli nýs almannahættumats Ríkislögreglustjóra aukið viðbúnað sinn á fjöldasamkomum hér á landi. Þetta hefur verið gert í kjölfar hryðjuverkaárása í Bretlandi, Svíþjóð og víðar. Í Litahlaupinu á laugardaginn mátti til dæmis sjá sérsveitarmenn vopnaða skammbyssum auk þess sem lögregla hefur lokað götum með því að leggja fyrir þær stórum vörubílum í stað þess að nota girðingar, borða eða keilur.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á sæti í nýstofnuðu Þjóðaröryggisráði. Hún ætlar að taka málið upp á fundi þess í dag. Hún hefur gagnrýnt að almenningur hafi ekki verið upplýstur fyrir fram um að þetta stæði til.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði í fréttum í gær að hún treysti lögreglunni fyrir því mati, að það sé full ástæða til að sýna sérstaka árvekni á samkomustöðum þar sem almenningur kemur saman. Þessi aukni viðbúnaður sé ekki til merkis um að fólk hafi nokkuð að óttast, og að viðbúnaðurinn sé ekki endilega kominn til að vera.

Þjóðaöryggisráð kemur saman eftir hádegi í dag, þar sem málið verður rætt. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er formaður ráðsins. Svanhildur Hólm, aðstoðarmaður Bjarna, sagði í samtali við fréttastofu í morgun, að fundurinn verði haldinn á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Aðspurð hvers vegna svo mikils öryggis sé gætt á fundinum sagði Svanhildur að það sé vegna eðlis dagskrár hans. Öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli uppfylli nauðsynlegar öryggiskröfur.