Þjóðardýrlingar á peningaseðlum

Mynd með færslu
 Mynd:

Þjóðardýrlingar á peningaseðlum

25.10.2013 - 18:57
Þeir sem þjóðin veitir í vissum skilningi eilíft líf fá reistar af sér styttur út um torg og garða eða lenda á peningaseðlum. Jónasi Hallgrímssyni var reist stytta fyrir löngu. Nú er hann líka á seðli.

Ódáinsakur er í ásatrúnni það sem kristnir kalla Paradís.  Þeir sem fengið hafa eilíft líf með okkar þjóð fá sumir af sér styttu á fjölförnum stöðum eða í skemmtigörðum. Jón Karl Helgason hefur ritað bók um þjóðardýrlinga og segir frá pólitísku tafli með styttur fram og aftur um höfuðstaðinn og flutning beina úr gröfum og í nýjar grafir. Bókin heitir Ódáinsakur, helgifesta þjóðardýrlinga. Jónas Hallgrímsson hefur verið í umræðunni vegna myndar af honum á nýja tíu þúsund króna seðlinum. Í bók sinni fjallar Jón Karl um styttur í bók sinni og annars konar meðferð á dauðum dýrlingum, beinamálið kringum Jónas og beinamál Jóns Arasonar biskups einnig. Það er allt upplýsandi og séríslenskt. En vegna þess hve styttur eru þungar í vöfum og mikið mál að koma þeim upp lenda sumir þjóðardýrlingar á peningaseðlum. Það er algengt í mörgum löndum að setja skáld á peningaseðla, kannski vegna þess að þau voru alla tíð fátæk en verða svo tengd peningum í eilífðinni með því að vera á seðli. Danir settu HC Andersen á seðil fyrir löngu.  Í gær kom tíu þúsund króna seðill út hjá Seðlabankanum með mynd af Jónasi Hallgrímssyni og heiðlóu. Það var vonum seinna, segir Jón Karl. Andlegir tvíburabræður Jónasar í ýmsum löndum voru margir komnir á peningaseðla miklu fyrr. En skáld, segir Jón Karl, lenda ekki á peningaseðlum vegna þess að þau hafi peningavit. Rætt er við Jón Karl Helgason í Spegli dagsins.