Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjálfari ÍR-stúlkna sem mótmæltu hættir

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Þjálfari ÍR-stúlkna sem mótmæltu hættir

22.05.2019 - 11:21
Brynjar Karl Sigurðsson hefur stigið til hliðar sem þjálfari 11 ára stúlkna hjá ÍR sem urðu Íslandsmeistarar um helgina. Eftir sigurinn hentu stelpurnar verðlaunapeningum sínum í gólfið og neituðu að taka við bikarnum í mótmælaskyni.

Málið hefur vakið mikla athygli en mótið fór fram á Akureyri um helgina.

Ekki Brynjari að kenna

Leikmenn liðsins sendu frá sér bréf sem birtist á Hringbraut eftir atvikið. Þar segir: „Kæru foreldrar. Við stelpurnar áttum hugmyndina um að ekki taka við verðlaununum. Þetta var ekki Brynjari að kenna og okkur líður vel saman og elskum Brynjar. Þið getið ekki tekið okkur í sundur. Okkur finnst óréttlátt að þið takið dætur ykkar úr íþróttinni sem þær elska mest.“

Í dag funduðu þó Körfuknattleiksdeild ÍR og Brynjar Karl og niðurstaða þess fundar var sú að Brynjar Karl hefur nú stigið til hliðar. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stelpur úr ÍR sem Brynjar Karl þjálfar mótmæla en árið 2017 óskuði liðið eftir því að fá að taka þátt í strákamóti. Þeirri beiðni var hafnað af KKÍ.

Yfirlýsingu ÍR má sjá hér að neðan:

Fulltrúar úr stjórn og barna- og unglingaráðs Körfuknattleiksdeildar ÍR hafa fundað með þjálfarateymi og foreldrum í minnibolta 11 ára stúlkna vegna atviks er varð við verðlaunaafhendingu Íslandsmótsins á Akureyri síðastliðna helgi.

Félagið er óendanlega stolt af árangri sinna leikmanna sem urðu Íslandsmeistarar í minnibolta 11 ára stúlkna og unnu silfurverðlaun í 7. flokki stúlkna. Þessi árangur byggist á áralangri þrotlausri vinnu og metnaði leikmanna og þjálfarateymis flokksins.

Hins vegar var það að taka ekki við gullverðlaunum, sem flokkurinn hafði unnið fyrir, ekki í samræmi við gildi Körfuknattleiksdeildar ÍR þar sem virðing og háttvísi verður alltaf að vera í fyrirrúmi hvað sem öðru líður. 

Það er á ábyrgð þjálfara að leiðbeina iðkendum og sjá til þess að framkoma þeirra í viðburðum á vegum félagsins eða Körfuknattleikssambands Íslands sé í samræmi við það sem félagið, foreldrar og Körfuknattleikssambandið mega ætlast til. Ofangreint atvik og kringumstæður allar eru þess eðlis að það er óhjákvæmilegt að mati félagsins að þjálfarateymið axli ábyrgð.

Það er því sameiginleg niðurstaða allra hlutaðaeigandi þ.á.m. þjálfara flokksins að best sé að hann stígi til hliðar og að nýr þjálfari verði fundinn fyrir flokkinn. 

Körfuknattleiksdeild ÍR harmar þetta atvik og biður alla hlutaðeigandi þ.m.t. leikmenn, foreldra og fyrirsvarsmenn annarra liða afsökunar á því.

Fyrir hönd Körfuknattleiksdeildar ÍR

Guðmundur Óli Björgvinsson, 
formaður stjórnar KKD ÍR