Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þjálfari ÍR ósáttur við framgang KR-inga

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV

Þjálfari ÍR ósáttur við framgang KR-inga

03.05.2019 - 17:35
Borche Ilievski, þjálfari karlaliðs ÍR í körfubolta, er ósáttur við framgang leikmanna KR í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Hann segir leikmenn liðsins hafa viljandi brotið á Kevin Capers, leikmanni ÍR, sem mun líklega missa af oddaleik liðanna í Vesturbæ annað kvöld.

Capers mun að öllum líkindum ekki spila með ÍR annað kvöld en hann handleggsbrotnaði í leik liðanna í Breiðholti í gærkvöld sem KR vann 80-75.

Í samtali við Vísi.is segir Ilievski: „KR-ingar tóku fast á honum í öllum leikjum og kvörtuðu svo yfir því að hann væri með leikaraskap. Það endaði með því að þeir handleggsbrutu hann,“

Sama tóns gætir í samtali hans við mbl.is: „KR-ing­arn­ir lögðu upp með þetta frá byrj­un. Leik­menn, eins og Emil Bar­ja, voru sett­ir inn á sér­stak­lega til að kýla og sparka í Kevin. Það vita all­ir að hann er skap­stór,“

Hér má sjá myndskeið á vef Vísis af broti Jóns Arnórs Stefánssonar á Kevin Capers sem hafði þær afleiðingar að hinn síðarnefndi handleggsbrotnaði.

Liðin mætast annað kvöld klukkan 20:00 í DHL-höllinni í Frostaskjóli. ÍR hefur unnið báða leiki liðanna vestur í bæ en KR vann aftur á móti báða leiki liðanna í Breiðholti.

Vinni ÍR leikinn verða þeir Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í 42 ár, síðan 1977. KR getur hins vegar unnið sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í röð en liðið hefur unnið titilinn á hverju ári síðan 2014.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Mikil blóðtaka fyrir ÍR-inga

Körfubolti

KR og ÍR mætast í oddaleik á laugardag