Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þingvallanefnd harmar að kviknað hafi í brúðkaupsgesti

11.11.2019 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingvallanefnd harmar atvik sem átti sér stað í brúðkaupi í Þingvallakirkju í byrjun október þegar eldur kviknaði í fatnaði eins brúðkaupsgests. Nefndin ætlar að fara yfir verklag og reglur um meðferð elds og kerta við athafnir í kirkjunni.

Einar A. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður segir að þegar kirkjan sé leigð út sé það í verkahring landvarða að sjá um afhendingu og fylgjast með að farið sé eftir reglum meðan á athöfnum stendur. Í þessu tilfelli hafi kirkjan verið skreytt óvenjulega mikið og kertum dreift um hana alla. Einn af gestunum hafi rekið sig í skreytingu og eldur kviknað í fatnaði. Engan hafi sakað og meiðsli ekki verið alvarleg. Hins vegar sé atvikið áminning um að aldrei sé of varlega farið og endurskoða þurfi með hvaða hætti kirkjan sé leigð út. Þá sé atvikið áminning fyrir aðstandendur annarra timburkirkja að fara varlega með kerti og skreytingar.

Tillögur skoðaðar í vikunni

Þingvallanefnd kemur saman til fundar í vikunni þar sem teknar verða fyrir tillögur að útbótum. Meðal þess sem á að takmarka er meðferð kerta umfram þau sem tilheyra altari kirkjunnar. Þá verði leigjendum gerð betri grein fyrir mikilvægi eldvarna og gert að takmarka skreytingar sem bera með sér eldhættu. Eins á að fara yfir raflagnir og eldvarnir í kirkjunni til að koma í veg fyrir að tjón verði af völdum elds.