Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingsalurinn mótar stjórnmálin

Mynd: EPA-EFE / UK PARLIAMENTARY RECORDING UNIT

Þingsalurinn mótar stjórnmálin

14.09.2019 - 13:39

Höfundar

Það er ekki bara ein leið við að skipuleggja þingsal, en grunnmynd salarins getur verið táknræn fyrir skilning fólks á eðli valdsins í samfélaginu og jafnvel mótað umræðumenningu stjórnmálanna. Standa þingmenn fyrir ólíka hagsmuni og ósamrýmanlega hugmyndafræði eða eru þeir samstarfsmenn og ein heild? Eiga þeir að rökræða vandamál á jafningjagrundvelli eða eiga þeir hlusta á leiðtogann og meðtaka sannleikann?

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, er sérstakur áhugamaður um þingsali og hönnun þeirra. Hann segir fjögur eða fimm ólík form vera helst áberandi í grunnmyndum þingsala í heiminum og vitnar í samantekt hollensku arkitektastofunnar XML á hönnun þjóðþinga allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í bókinni Parliament.

Flestum evrópskum þjóðþingum var komið á fót á 19. öld þegar arkitektar leituðu í nýklassískum anda til forngrikklands og notuðust við hálfhringsform grískra leikhúsa. Íslenski Alþingissalurinn er flokkaður með þeim sem notast við afbrigði af þessu, skeifulaga form. Í þingsalnum snúa allir þingmenn að þingforseta, ríkisstjórn og ræðupúlti. Það þykir reyndar nokkuð óvenjulegt að notast við sérstakan ræðustól á þingi - víðast hvar flytja þingmenn ræður úr sætum sínum.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
epa07831400 A grab from a handout video made available by the UK Parliamentary Recording Unit shows the Tellers preparing to announce the result of a motion called by the government for motion to force an early election in the House of Commons in London, Britain, 09 September 2019. The motion failed to pass by 293 to 46 votes, with mass abstentions by members of the Parliament.  EPA-EFE/UK PARLIAMENTARY RECORDING UNIT / HANDOUT MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENTARY RECORDING UNIT   HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENTARY RECORDING UNIT

Önnur grunnmynd sem finna má víða um heim skipar þingmönnum í sæti í tveimur röðum andspænis hver öðrum, en þetta form varð fyrst til á Bretlandi á miðöldum. „Formið á breska þingsalnum er eins og það er vegna þess að konungurinn ánafnaði þinginu kapellu fyrir fimm hundruð árum. Síðan hefur salurinn bæði flutt og brunnið og þurft að endurbyggja hann nokkrum sinnum, en alltaf velja þeir þetta sama form. Þetta eru bara kórar úr miðaldakapellu,“ segir Andrés.

Það má því segja að skipulag neðri deildar breska þingsins sé leifar frá því þegar konungurinn var einráður og stéttir ráðgjafa sátu beggja vegna við hann - öðrum megin prestar og hinum megin aðalsmenn sem veittu honum ráð og stunduðu hagsmunagæslu. Þrátt fyrir breytt stjórnarfar hefur þessari hönnun verið viðhaldið æ síðan og skipulagið flutt út til nýlendna Bretlands um allan heim.

En arkitektúr er ekki bara táknrænn heldur mótar hann hegðun fólks í rýminu, það er því ekki ólíklegt að skipulag þingsins hafi áhrif á þá stjórnmála- og umræðumenningu sem þar þróast.

„Það er dálítið áhugavert að velta því fyrir sér að hverju miklu leyti þessi grunnmynd af þingsalnum hefur mótað stjórnmálamenninguna hjá Bretum. Af því að þú ert með þessa sterku andstæðupóla, lengst af tveggja flokka kerfi  og mjög heitt tekist á. Það er spurning hvort þetta hefði verið öðruvísi ef þau sætu í skeifu og það væri slembivalið í sæti eins og hér.“

Í einhverjum löndum sitja þingmenn allir og horfa í sömu í átt, eins og í skólastofu, þar sem einn ræðumaður les yfir þeim. Þetta fyrirkomulag er aðallega viðhaft í ólýðræðislegum ríkjum á borð við, Kína, Kúbu og Norður-Kóreu.

Nýjasta hugmyndin eru svo þingsalir þar sem þingmenn sitja í sætum sem raðað er í heilan hring. Innblásturinn ku meðal annars vera frá Alþingi til forna, en uppröðunin gerir þingmönnum kleift að horfa hver á annan og ræða saman á jafningjagrundvelli. Samkæmt bókinni Parliament frá hollensku hönnunarstofunni XML hafa 11 þjóðþing tekið upp þetta fyrirkomulag á undanförnum áratugum. 

Fjallað var um þingsali og arkitektúr valdsins í Lestinni á Rás 1 þann 11. september.

Mynd með færslu
 Mynd: XML - Parliament

Tengdar fréttir

Myndlist

Passamyndir sem listform

Bókmenntir

Don Kíkóti fyrir samtímann

Myndlist

Fann gleði í smíðum, steypu og mistökum