Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þingrofsfundurinn: Sest ekki í dómarasætið

24.05.2016 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Engin skjöl eru skráð í málaskrá forsætisnáðuneytis um þingrof og nýjar kosningar í aðdraganda fundar fyrrverandi forsætisráðherra og forseta Íslands á Bessastöðum fimmta apríl síðastliðinn. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, segir að það hafi verið tveggja manna tal sem þeir túlki með ólíkum hætti og hann ætli ekki að setjast í dómarasætið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra þriðjudaginn 5. apríl. Fyrr um daginn fór hann á fund forseta Íslands á Bessastöðum en frásögnum forsætisráðherrans fyrrverandi og forseta af þeim fundi ber ekki saman. Forseti Íslands boðaði til blaðamannafundar strax eftir fundinn og hefur síðan ítrekað í viðtölum að Sigmundur Davíð hafi komið umboðslaus til Bessastaða með beiðni um þingrof; för hans þangað hafi verið eins manns för.

Sigmundur Davíð sagði hins vegar í fréttum um helgina að hann hefði ekki farið með þingrofstillögu á fund forseta og segir að forseti fari með rangt mál. Fram kom hins vegar á Eyjunni að skjölin hafi verið tilbúin í sérstakri ríkisráðstösku sem embættismenn gættu á meðan en aldrei hafi komið til þess að þau yrðu undirrituð.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram fyrirspurn á Alþingi til Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra um hvort í málaskrá ráðuneytisins séu skráð skjöl um þingrof og nýjar kosningar sem hafi verið undirbúin í aðdraganda fundar með forseta Íslands 5. apríl, og forseti hafi greint frá opinberlega, eða önnur gögn tengd sama fundi. Og hvort gögnin séu aðgengileg og þá hvar.

Svar forsætisráðherra var lagt fram á Alþingi í gær og er einfalt, nei við báðum spurningum. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði þetta um málið í gær.

„Ég hef sagt að þarna var tveggja manna tal.  Þeir hafa túlkað þann fund með ólíkum hætti ég get ekki frekar en aðrir sest í dómarasætið í því.“ Og ætlar ekki að gera? „Og ætla ekki að gera.“