Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þingnefnd fjallar um Illuga og Orku Energy

28.04.2015 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ætlar að afla gagna um tengsl menntamálaráðherra við stjórnendur Orku Energy og taka málið fyrir í næstu viku.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir alþingismaður er varamaður í nefndinni og sat fund hennar í morgun. Hún segir að málið hafi verið rætt á fundinum í morgun.

Fram kom um helgina að stjórnarformaður Orku Energy, Haukur Harðarson, hefði keypt íbúð Illuga Gunnarssonar eftir að hann varð menntamálaráðherra, vegna fjárhagserfiðleika ráðherrans. Illugi hefur leigt íbúðina af Hauki.

Illugi starfaði einnig sem ráðgjafi Orku Energy um viðskipti í Singapúr eftir að hann tók sér hlé frá þingstörfum í kjölfar bankahrunsins. Haukur og aðrir fulltrúar Orku Energy voru með í för í vinnuferð Illuga til Kína í síðasta mánuði, og Illugi hefur verið viðstaddur undirritun samninga Orku Energy við kínverska ráðamenn.

„Minnihlutinn óskaði eftir því að þetta mál yrði tekið fyrir og það eru nefndardagar í næstu viku, það var óskað eftir því að þetta yrði rætt þar, búið að afla þá þeirra gagna og upplýsinga sem fyrir liggja um málið,“ sagði Sigríður.

Hún kveðst gera ráð fyrir því að nefndin biðji um gögn sem lúta að samskiptum Illuga við stjórnarmenn og stjórnendur Orku Energy.

„Það er náttúrulega stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að taka ákvörðun um það eftir að hafa rætt málið,“ sagði Sigríður. 

Fréttastofa sendi Eiríki Bragasyni, forstjóra Orku Energy á annan tug spurninga í tölvupósti í dag. Síðdegis barst póstur frá Eiríki. Engum spurningum fréttastofu var svarað en tilkynnt að stjórnendur Orku Energy hefðu sent frá sér grein sem vonandi birtist í Morgunblaðinu á morgun. Þar sé tekið á nokkrum þeirra atriða sem fram hafi komið í umræðu síðustu daga.