Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingmönnum meinaður aðgangur að þinghúsinu

15.05.2019 - 08:29
epa07570552 Chavist supporters shout a Venezuelan National Assembly deputies, in Caracas, Venezuela, 14 May 2019. The deputies of the Parliament, who had a debate on the 'prosecution' against opposition deputies scheduled for today, have been prevented to access the chamber due to an alleged bomb threat.  EPA-EFE/Raul Martinez
Fylgismenn Maduros gerðu hróp að fulltrúum stjórnarandstöðunnar við þinghúsið í Caracasí gær. Mynd: EPA-EFE - EFE
Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sakar stjórn Maduros forseta um að hefta starfsemi þingsins eftir að öryggissveitir meinuðu þingmönnum stjórnarandstöðunnar að komast inn í þinghúsið í Caracas í gær. 

Guaido, sem hvatt hefur til uppreisnar gegn Nicoals Maduro forseta, sagði í gærkvöld að öryggissveitir hefðu beitt þingmenn hörku og að þingið væri í raun hernumið.

Þingkonan Manuela Bolivar sagði að fjöldi leyniþjónustumanna hefði verið sendur inn í þinghúsið og þeir borið því við að verið væri að leita að sprengju. Þetta væri ekki í fyrsta skipti sem þingmönnum væri meinaður aðgangur að þinghúsinu. Stjórnarandstæðingar eru í meirihluta á þingi Venesúela.

Fréttastofan AFP segir að stofnun eða þing sem Maduro hafi nýlega komið á fót þinginu til höfuðs hafi samþykkt að svipta fjórtán þingmenn stjórnarandstöðunnar friðhelgi, þannig að þeir verði líklega sóttir til saka fyrir andóf gegn forsetanum og hugsanlega landráð.

Einn þeirra Edgar Zambrano, varaforseti þingsins, hafi verið handtekinn í síðustu viku, annar flúið til Kólumbíu, en þrír leitað skjóls í erlendum sendiráðum í Venesúela.