Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingmenn virði ákvörðunarrétt sveitarfélaga

26.09.2019 - 16:43
Myndir teknar með dróna.
Íbúum á Skagaströnd fjölgaði um 3% eða um 14 íbúa.  Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Sveitarstjórn Skagastrandar segir vinnubrögð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga ekki vera í samræmi við hagsmuni allra sveitarfélaga í landinu. Sveitarfélagið hvetur alþingismenn til þess að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og hafna þingsályktunartillögu um sameiningu sveitarfélaga.

Á fundi sveitarstjórnar í vikunni fóru fram umræður um þingsályktunartillögu um að íbúafjöldi í hverju sveitarfélagi skuli hækkaður í tveimur áföngum. Halldór G. Ólafsson, oddviti Skagastrandar segir að raddir minni sveitarfélaga fái ekki að heyrast. 

„Í raun og veru finnst okkur í grunninn að íbúarnir eigi að hafa skoðun á því hvernig sameiningum sveitarfélaga er háttað. Það er ekki hægt að taka af þeim sjálfsákvörðunarrétt í þessum málum. Og við erum ekkert endilega á móti sameiningum. Það verður bara að vera framkvæmt á forræði íbúanna, það er enginn annar sem á að ákveða það,“ segir Halldór.

Sveitarfélagið hefur ekki í hyggju að segja sig úr Sambandi íslenskra sveitarfélaga líkt og Tjörneshreppur gerði nýverið. 
Halldór fordæmir aftur á móti vinnubrögð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga í aðdraganda aukalandsþingsins í byrjun september. Sameiningarviðræður hafa staðið í Austur-Húnavatnssýslu um talsvert langt skeið. Seinast var fundað um málið í sumar og til stendur að taka upp þráðinn í haust. 

Og hvað viljiði að verði gert núna?“

„Alþingi verður að fella út þessar lögþvinganir. Maður verður að leggja traust sitt á Alþingi íslendinga,“ segir Halldór.