Þingmenn vilja hindra Trump í að hefja stríð gegn Íran

epa08112879 Secretary of Defense Mark Esper (L) and Chairman of the Joint Chiefs of Staff Mark Milley (R) arrive to brief lawmakers on US engagements with Iran in the US Capitol in Washington, DC, USA, 08 January 2020. Earlier in the day, President Donald J. Trump said Iran 'appears to be standing down' after their missile strikes against military bases in Iraq.  EPA-EFE/SHAWN THEW
Mark Esper, varnarmálaráðherra, og Mark Milley, yfirhershöfðingi, mæta í Bandaríkjaþing til að upplýsa þingmenn um stöðu mála eftir árásir Írana á tvo flugvelli í Írak Mynd: EPA-EFE - EPA
Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykktu í kvöld þingsályktun sem ætlað er að torvelda Donald Trump, Bandaríkjaforseta, að lýsa stríði á hendur Íran upp á sitt eindæmi. Þingsályktunin hefur meira pólitískt en lagalegt gildi og var samþykkt nokkurn veginn eftir flokkslínum; 224 sögðu já en 194 nei. Þrír Repúblikanar samþykktu ályktunina, sem kveður á um að forsetinn skuli leita heimildar þingsins - og fá - áður en hann efnir til hernaðaraðgerða gegn Íran.

Tillagan var lögð fram eftir að Bandaríkjaher réði íranska hershöfðingjann Kassem Soleimani af dögum í Írak í síðustu viku og Íranar svöruðu með eldflaugaárás á tvo herflugvelli í Írak aðfaranótt miðvikudags. Mikil og vaxandi spenna hafði þá verið í samskiptum ríkjanna um nokkurt skeið og óttuðust margir að þessir atburðir gætu leitt til meiriháttar stríðsátaka.

Matt Gaetz, einn dyggasti stuðningsmaður Trumps, var einn þriggja Repúblikana sem samþykktu ályktunina. Hún væri ekki hugsuð sem gagnrýni á forsetann, sagði Gaetz, heldur væri það einfaldega rangt að hefja „enn eitt endalausa stríðið í miðausturlöndum.“

Trump gerir lítið með ályktun þingsins og segist ekki þurfa leyfi frá einum né neinum til að fyrirskipa árás á Íran, telji hann nauðsynlegt að grípa til slíkra úrræða.