Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þingmenn með lögmann vegna Klausturmálsins

10.12.2018 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar segir eðlilegt að stofnunin taki afstöðu til Klaustur-upptökunnar. Fjórir þingmenn Miðflokksins, sem sátu að sumbli á Klausturbar hafa ráðið sér lögmann sem sendi Persónuvernd erindi um upptökuna. „Þar var þess krafist að Persónuvernd tæki til rannsóknar hver hafi staðið að þeirri hljóðupptöku sem átti sér stað þriðjudaginn 20. nóvember síðastliðinn sem og að viðeigandi úrræðum yrði beitt gagnvart hluteigandi,“ segir Helga.

Rúmum sólarhring síðar steig Bára Halldórsdóttir fram í fjölmiðlum og játaði að hún hefði tekið samtal þingmannanna sex upp. „Í ljósi þessa hefur persónuvernd í dag sent erindi til lögmannsins þar sem bent er á að samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun liggi nú fyrir hver tók þessar samræður upp. Með vísun til þess þá er óskað svara um hvort enn sé farið fram á umfjöllun persónuverndar um málið og hvort farið sé fram á að hún beiti valdheimildum sínum og þá hverjum,“ bætir Helga við.

Fjögur erindi hafa borist frá almenningi þar sem spurt er hvort Persónuvernd ætli að beita sér í málinu eða gerðar almennar athugasemdir um umræðuna á Klausturbar. Helga segir að ekki sé komið á hreint hvort Persónuvernd taki upptökuna formlega fyrir en hún verði rædd á stjórnarfundi í lok næstu viku.

„Í ljósi þess hvernig þetta mál er, þá er eðlilegt að það komi einhverskonar afstaða frá Persónuvernd í því. Það erindi sem kom til okkar gekk út frá því að það yrði þá skoðað í ljósi þess að það er stjórnarskrárákvæði um friðhelgi einkalífs. Það er eðlilega ákveðin ákvæði í persónuverndarlögum sem gætu verið er til skoðunar,“ segir Helga.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV