Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þingmenn gera upp tímann sinn með Birgittu

19.07.2019 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Bæði núverandi og fyrrverandi þingmenn Pírata hafa undanfarna daga lýst samskiptum sínum við Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi þingmann flokksins, eftir að tilnefningu hennar í trúnaðarráð var hafnað. Ásta Guðrún Helgadóttir fyrrverandi þingmaður segist á Facebook í dag þjást af áfallastreituröskun eftir að hún hætti á þingi og Sara Elísa Þórðardóttir varaþingmaður flokksins sakaði Birgittu um að hafa komið óheiðarlega fram við samstarfsfólk í viðtali við Stundina.

Málið rataði í fjölmiðla þegar fréttavefurinn Viljinn birti myndskeið frá fundi Pírata þar sem Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hellti sér yfir Birgittu sem hafði þá verið tilnefnd í trúnaðarráð flokksins. „Hún grefur undan samherjum sínum ef hún sér af þeim ógn. Hún hótar samherjum sínum þegar hún fær ekki það sem hún vill,“ sagði Helgi Hrafn. 

Einhverjum þóttu þetta kaldar kveðjur til Birgittu sem var oftar en ekki í aðalhlutverki hjá flokknum og í kastljósi fjölmiðla þegar hann naut hvað mestra vinsælda í kosningunum 2016 eftir Panamaskjölin og fékk tíu þingmenn. Reuters skrifaði til að mynda ítarlega grein um Birgittu undir heitinu Pírataskáldið sem gæti orðið næsti forsætisráðherra Íslands. Og á vef BBC má lesa greinina Fyrsti Píratinn til valda sem var skrifuð eftir að Birgitta fékk umboð til að mynda nýja ríkisstjórn.

Fréttastofa hefur ekki náð tali af Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingflokksformanni Pírata vegna þessa máls. Og Birgitta sjálf hefur lýst því yfir að hún ætli ekki að fara í opinber rifrildi við fyrrum samstarfsfólk og ítrekaði þá afstöðu sína í skilaboðum til fréttamanns. Halldóra Mogensen varaþingflokksformaður vísaði á Helga Hrafn.

Helgi, sem hóf þetta uppgjör við Birgittu, segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ekki langað að flytja þessa ræðu sína en: „Ég hélt þessa ræðu af því að ég þurfti að halda hana.“ Án þessa uppgjörs hefði staðan geta orðið sú að Birgitta sæti í einni mestu trúnaðarstöðu flokksins. Hann segist hafa rætt þetta við aðra þingmenn og enginn úr þingflokknum hafi gert athugasemdir við hana eftir að umfjöllun fjölmiðla hófst. Helgi tekur fram að hann vilji engum illt og voni að Birgitta nýti sína styrkleika sem sannarlega séu til staðar, þar sem þeir komi að gagni.

Eftir að ræða Helga rataði í fjölmiðla hafa þingmenn, varaþingmenn og fyrrverandi þingmaður flokksins stigið fram og lýst samskiptum sínum við Birgittu. Í þessum hópi er Ásta Guðrún Helgadóttir sem var um skeið þingflokksformaður.  Hún deilir viðtali Stundarinnar við Söru Elísu Þórsdóttur varaþingmann Pírata og segir að lýsingar hennar lýsi ágætlega „því sem ég þurfti að díla við í tvö ár af samstarfi við þessa konu, sem var það erfitt að það þurfti að kalla til vinnustaðarsálfræðing.“ Óreiða hafi búið til einræðisherra þar sem hinn frekasti fékk að ráða. Þegar reynt hafi verið að spyrna við því hafi allt farið í uppnám.

Ásta Guðrún var hluti af þingflokki Pírata sem leitaði til vinnustaðasálfræðings til að leysa samskiptaágreining. Þingflokkurinn samanstóð þá af Ástu, Helga Hrafni og Birgittu.  Gagnrýnin beindist meðal annars að Birgittu sem var sökuð um að hafa reynt að taka sér titil formanns án þess að hafa umboð félagsmanna til þess. 

Helgi Hrafn segir að það komi honum ekki á óvart að fólk skuli hafa ákveðið að tjá sig um upplifun sína og reynslu þótt það sé hans skoðun að þetta sé fyrst og fremst innanflokksmál.  Hann hafi sjálfur ekki séð þann kost að þegja því honum hafi fundist að fólkið sem átti að kjósa í trúnaðarráðið yrði að vita af þessu. 

Helgi viðurkennir að Birgitta hafi vissulega verið áberandi í starfi Pírata og án hennar hefði flokkurinn sennilega ekki náð inn í þing í kosningunum 2013. „En þótt þú byggir hús þá þýðir það ekki að þú megir gera hvað sem er við þá sem búa í húsinu.“  Hann hafi í ræðu sinni verið að lýsa hegðun sem honum finnist óboðleg, hvort sem hún beinist að honum eða einhverjum öðrum. „Það er bara glatað að tala um ofbeldishegðun, það er aldrei rétti tíminn og aldrei rétti staðurinn.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV