Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingmenn fóru í nærri 1000 flugferðir í fyrra

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Tveir þingmenn Vinstri grænna flugu mest allra þingmanna í fyrra. Formaður atvinnuveganefndar flaug innanlands fyrir rúmar tvær milljónir. Alls fóru þingmenn í nærri 1000 flugferðir árið 2018. Innanlandsflugferðir voru tæplega sex hundruð, langflestar hjá landsbyggðarþingmönnum.

Flugviskubit og kolefnisfótspor

Umræður um mengun vegna flugferða hefur færst í aukana undanfarna mánuði og segjast margir ætla að reyna að draga úr flugferðum eins og kostur er. Á sama tíma er aukin krafa um alþjóðlegt samstarf, oft vegna loftslagsmála, sem setur eyjuna Ísland í svolítið snúna stöðu. Að minnsta kosti þegar kemur að utanlandsferðum. 

Á vef Alþingis er kostnaður vegna flugferða þingmanna sundurliðaður, en fjöldi flugferða er ekki tilgreindur. Fréttastofa lagði inn fyrirspurn til Alþingis þess efnis, um innanlands- og utanlandsferðir. Ekki reyndist hægt að fá samanburð milli ára, en árið 2017 var óvenjulegt vegna kosninga að hausti. 

Lilja Rafney flaug langmest

Alþingismenn fóru í 572 flugferðir innanlands 2018. Tæplega 80 prósent voru ferðir þingmanna Norðvestur- og Norðausturkjördæma milli heimilis og þings. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, flaug langmest allra þingmanna innanlands 2018. Lögheimili hennar er á Suðureyri. Kostnaður við innanlandsflug Lilju Rafneyjar var rúmar tvær milljónir. Á vef Alþingis segir þó að kostnaðurinn sé rúmar 2,2 milljónir, en eftir eftirgrennslan fréttastofu í dag kom í ljós að Lilja Rafney fékk tvisvar endurgreiddan reikning upp á 208.000 krónur, fyrir mistök. Það verður leiðrétt. 

Þeir Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson, þingmenn Miðflokksins, flugu minnst af þingmönnum kjördæmisins, fyrir rúmlega tuttugu og tvö þúsund krónur á mann. Alls kostaði flug þingmanna kjördæmisins rúmlega 3,1 milljón króna.

Sigmundur Davíð flaug minnst

Af þingmönnum Norðausturkjördæmis flugu þau Njáll Trausti Friðbertsson Sjálfstæðisflokki og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir Samfylkingu mest, fyrir rúma eina og hálfa milljón á mann. Þau eru með lögheimili á Akureyri. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, flaug minnst, fyrir sextíu og sex þúsund krónur, en hann er nú með lögheimili í Garðabæ. 
Þingmenn Norðausturkjördæmis flugu innanlands fyrir 10,4 milljónir árið 2018. 

Varaformaðurinn flaug meira en formaðurinn

Alþingismenn fóru í 382 flugferðir til útlanda vegna vinnu í fyrra. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG og varaformaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, flaug mest, fyrir rúmlega 1,2 milljónir króna. Þingmenn utanríkismálanefndar ferðast alla jafna mikið, en formaðurinn, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, flaug fyrir átta hundruð og áttatíu þúsund krónur. Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingar, flaug minnst, fyrir tæpar þrjú hundruð þúsund krónur. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og þingmaður VG, er með næstmestan kostnað vegna utanlandsflugs, á eftir Rósu Björk, átta hundruð níutíu og fimm þúsund krónur. Þess ber að geta að ferðir ráðherra eru ekki inni í tölunum, þar sem þeir eru á vegum ráðuneytanna.