Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þingmaður gagnrýnir bólusetningarumræðu

26.02.2015 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Halldóra Mogensen varaþingmaður Pírata sagði á Alþingi í dag að hún hefði sjaldan orðið vitni að jafn hatrammri og einstrengingslegri umræðu og þeirri sem skapast hafi um bólusetningar hér á landi.

Þeir sem vilji ekki láta bólusetja börn sín séu úthrópaðir og allt gert til að reyna að þagga niður í þeim, að sögn Halldóru. „Hvað er þetta annað en þöggun? Mér er hugsað til Bandaríkjanna eftir 11. september 2001 þar sem ekki mátti gagnrýna valdstjórnina án þess að vera uppnefndur unamerican eða anti patriot. Nú er ég ekki að kenna íslenskt heilbrigðiskerfi við valdstjórn Bandaríkjanna en við sem samfélag erum komin á hálan ís þegar það þykir í lagi að þagga niður í samborgurum sem sams konar uppnefnum. Maður spyr sig, af hverju er ekki hægt að ræða bólusetningar á yfirvegaðan hátt eins og hvert annað mál? Hvað er fólk svona hrætt við? Í lýðræðislegu samfélagi á fólk að hafa rétt á sinni skoðun, og okkur ber að sýna þessum skoðunum umburðarlyndi, og takast á um ólíka hugmyndafræði með heilbrigðri gagnrýni og virðingu,“ sagði Halldóra.