Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þingið felldi tillögu Johnson um kosningar

09.09.2019 - 23:47
epa07818047 A handout photo made available by the UK Parliament shows Prime Minister Boris Johnson during a debate in the House of Commons in London, Britain, 04 September 2019. Prime Minster Boris Johnson lost a series of vote this evening including a vote for an early election.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT / HANDOUT MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT / JESSICA TAYLOR HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT
Breska þingið hafnaði öðru sinni í kvöld tillögu Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um að boða til þingkosninga 15. október næstkomandi áður en Bretar eiga að ganga úr Evrópusambandinu. 293 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en 46 voru á móti. Aukinn meirihluta þurfti til að tillagan næði fram að ganga.

Dagurinn í dag var Boris Johnson erfiður. Fyrr í kvöld samþykkti þingið kröfu Dominics Grieve, þingmanns sem nýlega var rekinn úr Íhaldsflokknum, um að öll skjöl um ráðstafanir ríkisstjórnar Johnsons fyrir samningslausa útgöngu úr ESB yrðu gerð opinber.  Þá verða samskipti ýmissa starfsmanna forsætisráðuneytisins í aðdraganda þess að boðað var til þinghlés einnig opinberuð. Sagði Grieve margt benda til þess að þar hefði ríkisstjórnin ekki komið heiðarlega fram.

Eins og búast mátti við voru þung orð látin falla í umræðunni í kvöld. Boris Johnson sagði Verkamannaflokkinn ekki þora í kosningar þar sem flokkurinn óttaðist að hann myndi tapa þeim undir forystu Jeremy Corbyns, leiðtoga flokksins. „Þó er einhver hluti flokksmanna sem vill ekki kosningar þar sem hann óttast að Corbyni vinni þær.“ Johnson lýsti því jafnframt yfir að hann myndi ekki fara fram á lengri frest við Evrópusambandið og því myndi Bretland yfirgefa Evrópusambandið þann 31. október. Hann myndi þó áfram reyna ná samkomulagi á leiðtogafundi sambandsins í næsta mánuði.  

Corbyn sagðist ekki ætla að ganga í gildru Johnson og sakaði forsætisráðherrann um að ætla að ýta bresku þjóðinni fram á ystu nöf með útgöngu Bretlands án samkomulags. Það kæmi verst við þá sem stæðu höllum fæti í bresku samfélagi. Atkvæðagreiðslan í kvöld var síðasta verk þingsins fyrir fimm vikna hlé en það kemur aftur saman þann 14. október.